Fótbolti

Gamli Liverpool maðurinn reifst við þjálfarann og hætti eftir aðeins þrjár vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Skrtel fagnar marki með Liverpool.
Martin Skrtel fagnar marki með Liverpool. Getty/ Alex Livesey
Martin Skrtel var ekki lengi leikmaður ítalska félagsins Atalanta. Hann spilaði í átta ár með Liverpool en náði aðeins og spila einn leik fyrir þá bláu og svörtu.

Martin Skrtel lék með Liverpool frá 2008 til 2016 en nú er þessi 34 ára gamli miðvörður óvænt að leita sér að nýju félagi.

Liverpool seldi Skrtel til Fenerbahce í Tyrklandi þar sem hann spilaði út þriggja ára samning. 9. ágúst samdi hann síðan við ítalska liðið Atalanta. Það var hins vegar stutt gaman og entist ekki nema í þrjár vikur.

Fréttir frá Atalanta herma að Martin Skrtel hafi náð samkomulagi við félagið um að fá að segja upp samningi sínum og leita á önnur mið.

Ástæðan er rifrildi við knattspyrnustjórann Gian Piero Gasperini. Gasperini hefur ráðið ríkjum hjá félaginu frá 2016 og undir hans stjórn komst félagið í Meistaradeildina í fyrsta sinn.

Eini leikur Martin Skrtel með liðinu kom í 3-2 útisigri á móti SPAL. Hann átti að vera með á móti Torino í gær en rauk út á laugardaginn eftir rifildið við Gian Piero Gasperini.

Martin Skrtel var síðan hvergi sjáanlegur í leiknum á móti Torino sem Atalanta tapði 3-2 á heimavelli. Liðið hefur þar með fengið á sig fimm mörk í fyrstu tveimur leikjunum og þarf eitthvað að fara að huga að varnarleiknum.

Manchester City fær því ekki að reyna sig á móti Martin Skrtel í Meistaradeildinni en Atalanta lenti í riðli með City, Shakhtar Donetsk og Dinamo Zagreb.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×