Handbolti

Alfreð Gíslason sextugur í dag | Þáttur um ferilinn á Stöð 2 Sport

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Afmælisbarnið Alfreð.
Afmælisbarnið Alfreð. vísir/getty
Alfreð Gíslason, sigursælasti handboltaþjálfari Íslands, fagnar sextíu ára afmæli sínu í dag.



Þáttur um Alfreð verður sýndur á Stöð 2 Sport klukkan 21:10 í kvöld. Henry Birgir Gunnarsson og Sigurður Már Davíðsson fóru til Kiel í sumar, fylgdust með kveðjuleik Alfreðs og ræddu við hann og samferðamenn hans.



Alfreð tók við Kiel 2008 og lét af störfum í sumar. Undir hans stjórn varð Kiel sex sinnum þýskur meistari, sex sinnum bikarmeistari, vann Meistaradeild Evrópu tvisvar sinnum og EHF-bikarinn einu sinni.

Uppskera ársins 2012.vísir/getty
Alfreð þjálfaði samfleytt í Þýskalandi í 22 ár. Hann var með Hameln í tvö ár en tók svo við Magdeburg 1999. Hann gerði Magdeburg að þýskum meisturum og EHF-bikarmeisturum 2001 og ári seinna vann liðið Meistaradeild Evrópu.

Alfreð var í sjö ár hjá Magdeburg og þjálfaði svo Gummersbach á árunum 2006-08. 

Akureyringurinn var landsliðsþjálfari Íslands 2006-08 og stýrði íslenska liðinu á HM 2007 og EM 2008.

Alfreð fagnar sigrinum frækna á Frökkum í Magdeburg á HM 2007.vísir/pjetur
Hér heima þjálfaði Alfreð uppeldisfélag sitt, KA, í sex ár. Hann gerði KA að Íslandsmeisturum 1997, bikarmeisturum 1995 og 1996 og deildarmeisturum 1996.

Alfreð átti farsælan feril sem leikmaður og varð m.a. tvisvar sinnum þýskur meistari með TUSEM Essen. Hann varð bikarmeistari með KR 1982 og Bidasoa Irún á Spáni 1991.

Alfreð lék 190 leiki fyrir íslenska landsliðið og skoraði í þeim 542 mörk. Hann var valinn besti leikmaður B-keppninnar í Frakklandi 1989 þar sem Ísland fór með sigur af hólmi. Sama ár var Alfreð valinn Íþróttamaður ársins.

Alfreð í úrslitaleik B-keppninnar 1989 gegn Póllandi.mynd/brynjar gauti



Fleiri fréttir

Sjá meira


×