Í ályktun flokksráðsins sem samþykkt var í hádeginu var kallað eftir pólitískri og almennri umræðu um aukin hernaðarleg umsvif á Suðurnesjum. Flokksráðið áréttaði að aukin vígvæðing stuðlaði að meiri ófriði og hafi einnig í för með sér stórt kolefnisfótspor, sem væri olía á eld þeirrar ógnar sem steðjar að heiminum vegna loftslagsbreytinga.

Hamfarahlýnun stærsta áskorunin
„Okkar afstaða í þessum málum er sú að við leggjumst gegn allri vígvæðingu á norðurslóðum og höfum lagt mikla áherslu á það að þeim sé haldið utan við uppbyggingu á hernaðar- og varnarmannvirkjum. Það sama má auðvitað segja almennt um Norðurhöf þar sem við sjáum auðvitað mjög aukna umferð ýmiskonar farartækja sem eru í hernaðarlegum tilgangi,“ segir Katrín í samtali við fréttastofu.Loftslagsmálin og hamfarahlýnun af þeirra völdum voru einnig á dagskrá flokksráðsins og segir ráðið það vera brýnasta pólitíska verkefni samtímans að sporna við þeirri þróun og grípa til aðgerða. Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum séu leiðarstefið í allri pólitískri stefnumótun Vinstri grænna samkvæmt ályktun flokksráðsins.
Samhliða aðgerðum í loftslagsmálum ályktar flokksráðið að staðið verði vörð um velferð almennings og tryggt að aðgerðir gegn loftslagsbreytingum verði ekki til þess að auka á ójöfnuð heldur verði það gert með skýrri forgangsröðun í þágu velsældar og breyttri hugsun í ríkisrekstri.

Brýnt að ljúka breytingum á lögum um jarðakaup
Meðal þess sem flokksráðið kemur inn á í ályktun sinni eru breytingar á lögum og reglum um jarða- og fasteignaviðskipti hér á landi. Það sé nauðsynlegt að heimildir séu til staðar til að takmarka eignarhald og stýra auðlindanýtingu.„Í því samhengi er nauðsynlegt að samþykkt verði ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá,“ segir í ályktuninni.
Í ályktun flokksráðs var einnig fagnað langþráðri friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum, sem hefur verið baráttumál Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs frá upphafi.
Í gær tilkynntu ritari flokksins og varaformaður, þau Edward Huijbens og Elín Oddný Sigurðardóttir, að þau myndu ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Það verður því breyting í forystu flokksins á komandi landsfundi í október. Flokksráðsfundi lýkur nú síðdegis með göngu um þjóðgarðinn í Skaftafelli undir leiðsögn staðkunnugra flokksráðsfulltrúa.