Fjórir hafa fundist látnir og einn særður eftir að þyrla hrapaði fyrir utan Alta í norðurhluta Noregs í dag. Sex farþegar voru um borð í þyrlunni og þar af er eins farþega enn saknað. Fyrstu fregnir bárust af slysinu á fimmta tímanum að staðartíma.
Að sögn vitna sást eldur og svartur reykur stíga upp handan fjallsins þar sem þyrlan hrapaði. Í kjölfarið hafi heyrst fimm eða sex litlar sprengingar. Þyrlan er sögð hafa flogið lágflugi yfir fjallstindinn stuttu áður en slysið átti sér stað.
Björgunarþyrlur og sjúkrabílar eru á slysavettvangi og leit er hafin að farþeganum sem er saknað. Sá særði hefur jafnframt verið fluttur á sjúkrahús en lítið er vitað um ástand hans.
Tónlistarhátíðin Höstsprell fer fram á svæðinu um helgina og bauð Helitrans, fyrirtækið sem rak þyrluna sem um ræðir, upp á þyrluflug fyrir hátíðargesti eins og fyrri ár. Tónleikum kvöldsins hefur verið aflýst vegna slyssins og óvíst er með framhaldið.
Fjórir látnir og eins saknað eftir þyrluslys í Noregi
Eiður Þór Árnason skrifar
