Skriðusárið í Reynisfjalli er stórt eins og sjá má á þessari mynd.Lögreglan á Suðurlandi
Ákveðið hefur verið að halda austasta hluta Reynisfjöru lokuðum enn um sinn vegna hættu á berghruni úr suðurhlíð Reynisfjalls. Hættan er viðvarandi samkvæmt gögnum frá Veðurstofu Íslands en það er meðal þess sem fram kom á fundi rekstraraðila í Svörtu Fjöru, hluta landeigenda í Reynisfjöru, sveitarstjóra Mýrdalshrepps auk fulltrúa frá lögreglu á Suðurlandi, Veðurstofunni og Vegagerðinni.
Til stendur að vakta svæðið áfram og verður lokunarborði til staðar. Vinna á að útfærslu á frekari lausn að lokun á þessum hluta fjörunnar.
„Farið verður í vinnu við uppfærslu og samræmingu aðvörunarskilta sem standa við göngustíginn sem liggur niður í fjöruna. Mikilvægt er að koma fræðslu og upplýsingum á framfæri við gesti svæðisins,“ segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi.
Tveir ferðamenn slösuðust í þegar grjóta féll úr fjallinu á mánudaginn og stór skriða féll svo úr fjallinu á þriðjudag. Ekki hefur hrunið meira úr fjallinu síðan en hættan er viðvarandi. Skriðan á þriðjudag var sú þriðja á tíu árum.