Innlent

Hugsanlegt að komið verði til móts við andstæðinga Orkupakkans

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Stöð 2
Hugsanlega verður hægt að koma til móts við áhyggjur sem hafa sprottið upp vegna þriðja orkupakkans við stefnumótun í orkumálum, að sögn þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðismenn sem krefjast atkvæðagreiðslu innan flokksins um málið hafa framlengt undirskriftasöfnun. Tilskyldu marki hefur ekki verið náð en undirskriftum verður þó líklega skilað fyrir atkvæðagreiðslu á þingi eftir viku.

Þriðji orkupakkinn verður ræddur á aukaþingfundum á miðvikudag og fimmtudag. Atkvæði verða síðan greidd um þingsályktunartillöguna eftir viku, eða mánudaginn 2. september.

Sjónarmið gætu komið til skoðunar

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, að ekkert hefði breyst í afstöðu flokksins til málsins þrátt fyrir óánægju í baklandinu.

Hann segir að sjónarmið sem komið hafa fram hjá andstæðingum þriðja orkupakkans geti hins vegar komið til skoðunar á síðari stigum.

„Við veltum auðvitað fyrir okkur hvort það sé hugsanlega hægt að koma til móts við áhyggjur fólks af þáttum sem tengjast ekki þriðja orkupakkanum. Tengjast orkumálum almennt og öðrum slíkum atriðum með öðrum hætti. Þannig að við getum sagt að þau samtöl sem við höfum átt og fundir sem við höfum átt á undanförnum vikum og mánuðum hafa auðvitað skilað mjög miklu,“ segir Birgir Ármannsson.

Þetta séu atriði sem varði orkumál í víðara samhengi.

Tengjast orkustefnu, ákvörðunum sem við þurfum að taka varðandi hvernig við viljum byggja upp orkunet og hvernig við viljum tryggja landsmönnum áfram ódýra orku, segir Birgir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×