Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, segir að það hefði verið áhugavert að sjá hvernig leikur liðsins gegn Ludogorets í kvöld hefði þróast ef Valsmenn hefðu nýtt þau tækifæri sem þeir fengu í byrjun leiks.
Patrick Pedersen og Eiður Aron Sigurbjörnsson fengu úrvals færi sem ekki nýttust áður en Ludogorets komst yfir á 7. mínútu. Búlgörsku meistararnir voru 2-0 yfir í hálfleik, bættu svo tveimur mörkum við undir lokin og unnu 4-0 sigur og einvígið, 5-1 samanlagt.
„Það hefði breytt öllu ef við hefðum skorað úr öðru hvoru færinu í upphafi leiks. Við fengum líka færi í seinni hálfleik til að minnka muninn í 2-1. Þá hefði kannski komið smá skjálfti í þá. Við fengum fjögur klassafæri í leiknum,“ sagði Sigurbjörn í samtali við Vísi.
En kom það honum á óvart hversu mörg góð færi Valur fékk í leiknum?
„Við vissum að það væru möguleikar á móti þeim. Við komumst í færin en nýttum þau ekki.“
Þrátt fyrir góð færi var róður Vals þungur, enda andstæðingurinn gríðarlega sterkur. Sóknarleikur Búlgaríumeistaranna var beittur og Valsmenn áttu í miklum vandræðum með kantspil þeirra.
„Þetta er hörkulið. Þeir eru með þannig leikmannahóp að þeir geta nánast skipt um lið milli deildar- og Evrópukeppni. Þeir eru með mjög hraða og öfluga leikmenn,“ sagði Sigurbjörn.
Hannes Þór Halldórsson fór meiddur af velli í hálfleik og Lasse Petry í seinni hálfleik. Sigurbjörn kvaðst ekki vita nákvæmlega hvernig staðan á þeim væri.
„Þetta var hnjask en þeir bera sig báðir ágætlega,“ sagði hann að lokum.
„Hefði breytt öllu ef við hefðum skorað“

Tengdar fréttir

Umfjöllun: Ludogorets - Valur 4-0 | Valsmenn rassskelltir í Razgrad
Þátttöku Vals í Evrópudeildinni er lokið eftir 4-0 tap fyrir Ludogorets á útivelli.