Innlent

Komu grindhvalnum aftur á flot við Voga

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá aðgerðum björgunarsveitarmanna í gærkvöldi.
Frá aðgerðum björgunarsveitarmanna í gærkvöldi. Ægir Gunnarsson
Meðlimir í björgunarsveitinni Skyggni komu grindhval aftur á flot í gærkvöldi eftir að hvalurinn hafði strandað í fjörunni við Voga á Vatnsleysuströnd í gærmorgun. Það var gangandi vegfarandi sem kom auga á hvalinn í gærmorgun en lögregla og björgunarsveitarmenn mættu á vettvang.

Ljóst var að lítið var hægt að gera fyrir hvalinn fyrr en það myndi flæða aftur að um kvöldið og ákváðu íbúar í Vogum því að halda hvalnum rökum með blautum teppum yfir daginn.

Þegar byrjaði að flæða að í gærkvöldi fóru björgunarsveitarmenn í flotgalla og aðstoðuðu hvalinn aftur til hafs. Ægir Gunnarsson birti myndband af björguninni á Facebook-síðu sinni en hann sagði hvalinn hafa verið í töluverðan tíma að ná áttum og styrk til að synda í burtu eftir tæplega sólarhrings strand í grófri hraunfjörunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×