Enski boltinn

Farinn frá Gylfa til frönsku meistaranna

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Þetta ágæta samstarf á enda
Þetta ágæta samstarf á enda vísir/getty
Franska meistaraliðið PSG hefur staðfest kaupin á senegalska miðjumanninum Idrissa Gueye en hann kemur til félagsins frá enska úrvalsdeildarliðinu Everton þar sem hann hefur spilað á miðjunni með íslenska landsliðsmanninum Gylfa Þór Sigurðssyni undanfarin ár.

Gueye gerir fjögurra ára samning við PSG en samkvæmt heimildum SkySports er kaupverðið 29 milljónir punda.

Everton borgaði 7 milljónir punda fyrir Gueye sumarið 2016 en hann kom þá til félagsins frá Aston Villa þar sem hann lék í eitt tímabil eftir að hafa komið frá franska úrvalsdeildarliðinu Lille.

Gueye er 29 ára gamall en hann lék 33 leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð þar sem Everton hafnaði í 8.sæti.

Gueye er annar miðjumaðurinn sem kemur til PSG í sumar úr ensku úrvalsdeildinni því frönsku meistararnir klófestu einnig spænska miðjumanninn Ander Herrera en hann kom á frjálsri sölu eftir að hafa leikið með Manchester United undanfarin ár.

Þá hefur PSG einnig keypt franska varnarmanninn Abdou Diallo frá Dortmund og spænska miðjumanninn Pablo Sarabia frá Sevilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×