Innlent

Óku á 130 kílómetra hraða með barn sem var ekki í bílbelti

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögreglu sem hafði afskipti af ökumanni þótti undarlegt að þriggja ára barn sat laust í fanginu á foreldrum sínum í baksætinu þrátt fyrir að barnabílstóll væri í bifreiðinni.
Lögreglu sem hafði afskipti af ökumanni þótti undarlegt að þriggja ára barn sat laust í fanginu á foreldrum sínum í baksætinu þrátt fyrir að barnabílstóll væri í bifreiðinni. Lögreglan á Suðurlandi
Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði í gærkvöldi erlendan ferðamann á Mýrdalssandi sem ók á hátt í 130 kílómetra hraða.

Þegar lögreglumaður hafði afskipti af ökumanninum var honum litið í aftursæti bifreiðarinnar en þar sátu þrír farþegar; foreldrar sem sátu með þriggja ára barnið sitt í fanginu, án bílbeltis. Það vakti furðu lögreglunnar sér í lagi í ljósi þess að barnabílstóll var í bifreiðinni.

Ökumaðurinn fékk að sögn Lögreglunnar á Suðurlandi „væna“ sekt fyrir hraðaksturinn en foreldrarnir þurftu einnig að greiða sekt fyrir að vera ekki með barnið í viðeigandi barnabílstól.

Lögreglan segir þá jafnframt að nú í aðdraganda helgarinnar hafi nokkuð verið um það að ungir ökumenn á leið á tónlistarhátíð á Borgarfirði eystri „stígi heldur þungt á inngjöfina“ eins og lögreglan orðar það og fyrir vikið verið stöðvaðir vegna hraðaksturs.

Lögreglan segir að ökumenn hafi í auknum mæli ekið á sauðfé í umdæminu og vill lögregla beina þeim tilmælum til ökumanna að virða hámarkshraða og hafa í huga að sauðkindin er víða á beit í grasi sem liggur víða hátt og þétt upp við vegaxlir á þjóðvegi 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×