Innlent

Erlendur ferðamaður segir hátt í átta menn hafa ráðist á sig á Laugavegi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mikið var um slagsmál og líkamsárásir í miðbænum í nótt.
Mikið var um slagsmál og líkamsárásir í miðbænum í nótt. FBL/Anton brink
Erlendur ferðamaður hringdi eftir aðstoð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu klukkan 03:57 í nótt eftir að hann sagði að hátt í átta menn hefðu ráðist á sig og stolið símanum hans.

Áverkar eru á höndum, síðu og mögulega andliti. Hinir grunuðu fundust ekki og lítið er vitað um þá.

Þetta kom fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en mikið var um slagsmál og líkamsárásir í miðbænum í nótt.

Þannig tilkynnti kona laust eftir hálf fimm í nótt einnig um líkamsárás. Hún sagði marga menn hafa ráðist á sig. Sjúkrabifreið flutti konuna á Slysadeild til aðhlynningar. Ekki er vitað um meiðsl en áverkar eru sagðir minniháttar og er málið í rannsókn.

Sló og klóraði barþjón

Kona var handtekin laust fyrir hálf fjögur í nótt á veitingastað við Naustin 101 grunuð um líkamsárás. Hún er grunuð um að hafa slegið og klórað kvenkyns barþjón í andlitið. Konan var látin laus að upplýsingatöku lokinni. Sú sem lenti í meintri árás sagðist ætla sjálf á slysadeild í skoðun.

Klukkan 03:52 var lögreglu tilkynnt um líkamsárás á veitingahúsi í miðbænum. Karlmaður var kýldur í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í gólfið og rotaðist. Árásarþoli þurfti að leita á slysadeild til aðhlynningar eftir meintar barsmíðar. Árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði.

 

Tveir réðust á einn

Laust fyrir klukkan hálf átta í gærkvöldi var síðan tilkynnt um slagsmál þriggja manna í miðbæ Reykjavíkur. Tveir réðust á einn. Um var að ræða ágreining um vinnu og laun.

Maður í annarlegu ástandi var laust eftir klukkan tíu í gærkvöldi handtekinn í Hlíðunum grunaður um húsbrot og eignaspjöll. Maðurinn var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

 

Ekið á hjólreiðarmann

Um fimmleytið í gær var síðan tilkynnt um umferðarslys á gangbraut við Rútstorg í Kópavogi. Ökumaður ók á hjólreiðarmann sem hafnaði ofan á bifreiðinni. Maðurinn var ekki með hjálm og hvartaði undan eymslum í höfði, öxl og fótum. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Slysadeild til aðhlynningar. Ekki er vitað um líðan mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×