Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, bindur vonir við að frumvarp um jarðakaup útlendinga hér á landi verði tilbúið snemma í haust. Þróun síðustu ára sé óviðunandi segir ráðherra í samtali við Morgunblaðið í dag.
Í vikunni bárust fregnir af því að félag í eigu Jim Ratcliffes- keypti á dögunum Brúarland 2 sem liggur að Hafralónsá í Þistilfirði. Fyrir eiga félög hans fjölda jarða á Norðausturlandi. Einnig var greint frá í vikunni að íslenskt dótturfélag bandaríska ferðaþjónustufyrirtækisins Eleven Experience hefði keypt jörðina Atlastaði í Svafaðardal.
„Ungir bændur hafa ályktað í gegnum með ákveðnum hætti um að það þurfi að endurskoða jarðalögin og jafna samkeppnisstöðu ungra bænda við að geta keypt jarðir. Maður þurfi þá ekki að vera í samkeppni við erlenda auðkýfinga eða íslenska. Ég get alveg tekið undir með Sigurði Inga að það þurfi að endurskoða þetta,“ segir Jóna Björg Hlöðversdóttir, formaður ungra bænda.
Vinna er í gangi á vegum stjórnvalda að endurskoða lög um eignarhald á bújörðum og komu meðal annars fram í tillögum starfshóps að þau skilyrði yrðu sett að eigendur jarða byggju sjálfir á jörðinni og að erlendir eigendur þyrftu að hafa þar lögheimili.
Skiptar skoðanir eru um málið og bendir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, í skrifum á Eyjunni í dag á að Íslendingar festi kaup á fasteignum í öðrum löndum og það teljist sjálfsagt. Sama eigi að gilda í báðar áttir. Hann telur þetta þjóðernisrembing og veltir fyrir sér hvort eigendur landareigna eigi að bera kostnað af slíkum rembingi.
„Það sem kannski okkur unga bændur mestu máli er að það sé byggð í sveitum. Það er það sem fyrst og síðast skiptir máli. Við viljum hafa fólk í sveitunum, við viljum að byggð sé upp þjónusta, skólar, leikskólar og heilbrigðisþjónusta og samgöngur. Það fáum við ekki nema að það sé fólk sem býr á jörðunum,“ segir Jóna Björg.