Erlent

Rýma byggð vegna ótta við berghlaup í Noregi

Kjartan Kjartansson skrifar
Þyrla á flugi við Mannen árið 2014. Þá var einnig skriðuhætta í fjallinu.
Þyrla á flugi við Mannen árið 2014. Þá var einnig skriðuhætta í fjallinu. Vísir/EPA
Yfirvöld í Mæri og Raumsdal á vesturströnd Noregs hafa rýmt byggð nærri fjallinu Mannen vegna hraðrar gliðnunar í hluta fjallsins sem nefnist Veslemannen. Mikið hefur rignt á svæðinu síðasta sólahringinn og telja jarðfræðingar fjallið afar óstöðugt.

Rauðu viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir vegna hættunnar á berghlaupi, að því er segir í frétt norsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2. Fimm skriður eru sagðar hafa fallið úr fjallinu í nótt. Ákvörðun um rýmingu var tekin seint í gærkvöldi.

Fyrst var varað við óstöðugleika í fjallinu um miðjan júní og var þá gulu viðbúnaðarstigi lýst yfir. Síðan þá hefur hreyfingin í fjallinu færst í aukana. Efri hluti þess færist nú um sextíu millímetra á sólahring og neðri hlutinn um ellefu millímetra.

Rúmmál Veslemannen í Raumsdal er 120-180 þúsund rúmmetrar, um 1% af heildarrúmmáli Mannen. Undanfarið ár hefur Veslemannen gliðnað um tvo metra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×