Jón Daði Böðvarsson átti mjög góðan leik fyrir íslenska landsliðið sem vann Tyrkland 2-1 á Laugardalsvelli í kvöld. Gylfi Þór Sigurðsson hrósaði framherjanum mikið fyrir frammistöðu sína.
„Jón Daði var geggjaður í þessum leik,“ sagði Gylfi Þór í leikslok.
„Hann var ekki búinn að spila lengi svo það kom mér á óvart hversu vel hann spilaði.“
Selfyssingurinn spilaði síðast 16. febrúar eftir að hafa glímt við meiðsli og fallið aftar í goggunarröðinni hjá félagsliði sínu.
„Fyrir mig persónulega er mjög þægilegt að spila með honum. Hann heldur boltanum mjög vel uppi, fær gul spjöld á andstæðinginn, innköst, aukaspyrnur og ógnar alltaf fyrir aftan hafsentana og býr til svæði.“
„Hann gefur liðinu tíma til þess að koma með boltann upp og á mikið hrós skilið.“
Ragnar Sigurðsson skoraði bæði mörk Íslands sem er nú með 9 stig í riðlinum eftir fjóra leiki líkt og Tyrkland og Frakkland.
