Hafberg Þórisson, framkvæmdastjóri Laufskála fasteignafélags og eigandi Lambhaga, hefur sagt starfsmenn sína orðna langþreytta á þeirri hættu sem stafi af fljúgandi golfkúlum yfir á jörð félagsins í Lundi í Mosfellsdal.
Sagt var frá því fyrr í dag að í bréfi Hafbergs til bæjarráðs Mosfellsbæjar kæmi fram að mikil slysahætta felist í nálægð golfvallarins við jörðina þar sem Laufskáli stendur fyrir uppbyggingu á 7.000 fermetra gróðrarstöð.
Í höndum bæjaryfirvalda
Gunnar Ingi segir að skipulagsmál í Mosfellsdal séu í höndum bæjaryfirvalda. „Við munum skoða þetta í samráði við þau. Það hefur verið golfvöllur þarna síðan 1990 þannig að tilvist hans inni á þessu svæði hefur verið ljós lengi.“Að sögn Gunnars Inga hefur sambúð golfklúbbsins og Laufskála verið góð í gegnum árin. „Okkar samskipti við Hafberg hafa ekki verið neitt nema jákvæð. Við skiljum auðvitað að hann hafi áhyggjur af því að fá golfbolta í rúður,“ segir Gunnar Ingi, en umrætt gróðurhús verður að öllu leyti byggt úr gleri.

Og það finnist lausn sem allir geta sætt sig við?
„Já, eigum við ekki að vona það.“
Gunnar Ingi segir að leyfi hafi fengist fyrir nýbyggingunni fyrir nokkrum árum. „Þetta eru því ekki nýjar fréttir. Hvað veldur því nákvæmlega að þessi umræða komi núna tengist því væntanlega að framkvæmdir séu farnar af stað. Ég held að það séu til fullt af möguleikum, lausnum, þar sem Mosfellsdalurinn er frábært svæði. Gott útivistarsvæði fyrir fullt af fólki.“
Ertu þá að tala um að æfingasvæðið verði fært eitthvert annað?
„Ja, þetta er snúið að því leyti til að við erum með aðkomu og aðstöðu þarna. Þó að golfvöllur sé þannig að hann getur verið óreglulegur að einhverju leyti þá eru ákveðin lögmál í því. Það er ekki auðvelt mál að flytja bara æfingasvæðið. En við munum eflaust bara setjast yfir þessi mál með Mosfellsbæ og heyra hvernig þeir meta þetta og túlka.“
Gunnar Ingi segir að enn hafi ekki verið boðað til neinna funda vegna málsins. „Við bíðum bara slakir eftir að heyra frá þeim. Við erum rólegir.“