Heimsmeistaramót kvenna í knattspyrnu hefst í Frakklandi á föstudaginn með leik gestgjafa Frakka og Suður-Kóreu. Íþróttavöruframleiðandinn Nike lét gera auglýsingu fyrir HM kvenna í ár og heppnaðist hún mjög vel.
Áhuginn á kvennafótboltanum er alltaf að aukast í heiminum og heimsmeistaramót kvenna í knattspyrnu hefur stækkað mjög mikið á síðasta áratug. Mótið heppnaðist einstaklega vel í Kanada fyrir fjórum árum og því er búist við mjög áhugaverðu móti í Frakklandi næsta mánuðinn.
Nike er þekkt fyrir sýnar heimspekilegu og hvetjandi auglýsingar og sú nýjasta fellur vel inn í þann flokk.
Auglýsingin snýst um það hvert draumarnir geta tekið unga knattspyrnukonu í dag. Inntakið er: „Ekki breyta draumum þínum. Breyttu heiminum“
Aðalstjarna hennar er stelpa sem hefur verið valin til að fylgja leikmanni út á völlinn fyrir leik á HM.
Leikmaðurinn er hollenska stórstjarnan og Evrópumeistarinn Lieke Martens sem spilar með Barcelona og var kosin besta knattspyrnukona heims í október 2017.
Lieke Martens spyr stelpuna hvort hún sé tilbúin og það er eins gott því í framhaldi fer hún í rússibanareið um hinar ýmsu kringumstæður í fótboltaleik.
Auglýsingin hefur fengið mikið lof á samfélagsmiðlum og ekki af ástæðulausu. Hún hrífur flesta sem horfa og ætti bara að auka áhuga heimsins á komandi heimsmeistarakeppni þar sem bestu knattspyrnukonur heims berjast um stærsta titilinn í boði.
Það má sjá þessa vel heppnuðu auglýsingu hér fyrir neðan.
Don’t change your dream. Change the world. #justdoitpic.twitter.com/0cJ1ZTPyVn
— Nike (@Nike) June 1, 2019