Hollendingarnir Virgil van Dijk og Georginio Wijnaldum fá ekki langan tíma til að ná sér niður á jörðina eftir sigur Liverpool í Meistaradeildinni.
Hollenska landsliðið er komið saman og þeir félagar geta unnið annan titil á rúmri einni viku eftir aðeins nokkra daga.
Fyrst þarf hollenska landsliðið þó að vinna England í undanúrslitunum til þess að tryggja sér sæti í úrslitaleik Þjóðadeildarinnar. Leikurinn fer fram í Guimarães norðarlega í Portúgal.
Wijnaldum og Van Dijk fengu aðeins lengri tíma en aðrir leikmenn í hollenska hópnum en komu til móts við liðið í gærkvöldi. Þeir geta ekki kvartað mikið yfir þeim móttökum sem þeir fengu frá liðsfélögum sínum. Það má sjá þær hér fyrir neðan.
Een warm welkom voor de Champions League-winnaars, @GWijnaldum en @VirgilvDijk! #NationsLeaguepic.twitter.com/THjQ9isTJk
— OnsOranje (@OnsOranje) June 3, 2019
Undanúrslit fyrstu Þjóðadeildarinnar fara fram á morgun og á fimmtudagskvöld og eru allir leikir úrslitanna í beinni á Stöð 2 Sport.
Á morgun fer fram leikur Portúgals og Sviss og hefst hann klukkan 18.45. Á sama tíma á fimmtudagskvöldinu spila síðan Holland og England.
Wijnaldum og Van Dijk mæta þar einmitt nokkrum félögum sínum úr Liverpool sem spila með enska landsliðinu. Jordan Henderson, Trent Alexander-Arnold og Joe Gomez eru allir í enska hópnum.