Innlent

Byggt við Íþróttahúsið á Hellu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mynd sem sýnir nýju viðbygginguna við íþróttahúsið.
Mynd sem sýnir nýju viðbygginguna við íþróttahúsið. Rangárþing ytra.
Rangárþing ytra og verktakafyrirtækið Tré og Straumur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hafa undirritað verksamning vegna viðbyggingar, sem byggja á við Íþróttahúsið á Hellu.

Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri Rangárþings ytra (t.v) og Ólafur F. Leifsson frá Tré og Straumi staðfesta hér samninginn eftir undirritun hans.Rangárþing ytra
Um er að ræða tvílyft hús úr límtré, klætt steinullareiningum með einhalla þaki við núverandi íþróttahús. Á neðri hæðinni verður áhaldageymsla en á þeirri efri verður líkamsræktaraðstaða sem tengist núverandi íþróttamiðstöð um göngusvalir í íþróttahúsi.

Verkáætlun gerir ráð fyrir að hafist verði handa í byrjun júní, að húsið verði fokhelt í haust og áhaldageymslan verði tilbúin til notkunar 15. desember 2019. Verklok eru áætluð þann 1. júní 2020. Verksamningurinn hljóðar upp á 123 milljónir króna. Samningurinn var undirritaður í Íþróttahúsinu á Hellu að viðstöddum fulltrúum sveitarstjórnar og Heilsu-, íþrótta- og tómstundanefndar sveitarfélagsins.

„Framkvæmdin mun bæta aðstöðu Íþróttamiðstöðvarinnar til mikilla muna og eykur enn á fjölbreytta nýtingarmöguleika íþróttahússins,“ segir Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×