Skoðun

Sætir sigrar

Ingimar Einarsson skrifar
Um áratugaskeið voru heilbrigðismál nánast utan hinnar stjórnmálalegu umræðu í þjóðfélaginu. Ráðuneyti heilbrigðismála var ekki stofnað fyrr en árið 1970 og stjórnsýsluleg ábyrgð málaflokksins var áður á hendi dómsmála-, félagsmála- og ekki síst fjármálaráðuneytis.

Á 8. og 9. áratugum síðustu aldar beitti Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar (WHO) sér fyrir stefnumótun og áætlanagerð í heilbrigðismálum meðal aðildarríkja sinna. Flestar þjóðir Evrópu höfðu á þessum tíma sett sér sérstakar landsáætlanir í því skyni að uppfylla þau 38 heilbrigðismarkmið sem sett voru í Evrópu árið 1984 í samræmi við stefnumótunina „Health for All“ til ársins 2000 og Alma Ata yfirlýsinguna frá árinu 1978.

Í upphafi fyrsta áratugar þessarar aldar var samþykkt heilbrigðisáætlun fyrir Ísland til ársins 2010 og fylgdi hún í stórum dráttum Evrópuáætlun WHO (Health21) en jafnframt voru skilgreind séríslensk markmið fyrir Ísland og tölulegir mælikvarðar. Í heilbrigðisáætluninni voru þannig sett fram mælanleg forgangsmarkmið, m.a. á sviði áfengis-, fíkniefna- og tóbaksvarna, slysavarna, krabbameinsvarna, geðverndar og hjarta- og heilsuverndar. Við lok fyrsta áratugar aldarinnar var ráðist í gerð heilbrigðisáætlunar til ársins 2020 og varðandi Ísland var ætlunin að hún myndi leysa af hólmi fyrrnefnda áætlun til ársins 2010. Við þá áætlanagerð var heilbrigðisáætlun Evrópuskrifstofu WHO einkum höfð til hliðsjónar. Árið 2012 samþykktu svo aðildarríki WHO í Evrópu evrópska heilbrigðisstefnu til ársins 2020 (Health 2020).

Í upphafi þessa árs lagði heilbrigðisráðherra fram þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Var þar lögð áhersla á að efla grunnstoðir heilbrigðiskerfisins og þá þjónustu sem veitt er og þörf á að veita. Þessi stefnumótun er í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þar snýr þriðja markmiðið af 17 að heilsu og vellíðan allra aldurshópa, frá vöggu til grafar. Þannig gæti markvissari heilbrigðis- og velferðarstefna orðið lykillinn að bjartari framtíð í heilbrigðismálum.




Skoðun

Sjá meira


×