Innlent

Spá snjókomu á heiðum norðaustan til

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Spákortið á hádegi í dag en búast má við snjókomu á heiðum og fjallvegum norðaustan til.
Spákortið á hádegi í dag en búast má við snjókomu á heiðum og fjallvegum norðaustan til. veðurstofa íslands
Veðurstofa Íslands spáir dálítilli snjókomu á heiðum og til fjalla á norðaustanverðu landinu í dag.

Akstursskilyrði á sumum fjallvegum geta orðið varhugaverð fyrir illa útbúna bíla, til dæmis á Fjarðarheiði að því er fram kemur í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Annars verður norðan átt í dag og víða 8 til 13 metrar á sekúndu. Léttskýjað sunnan og vestan til en rigning eða slydda á norðaustanverðu landinu.

„Svalt í veðri, en hitinn nær þó líklega að skríða í 12 til 13 stig á Suðvesturlandi síðdegis.

Hægari norðaustan átt á morgun. Skýjað en úrkomulítið norðan- og austanlands, annars bjart veður. Hiti 5 til 14 stig, mildast sunnan heiða.

Á föstudag er útlit fyrir norðaustan golu eða kalda, skýjað veður og lítilsháttar vætu syðra,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu:

Norðlæg átt, yfirleitt 5-10 m/s. Rigning eða slydda með köflum um landið NA-vert og dálítil snjókoma á heiðum, en víða léttskýjað S- og V-lands.

Skýjað en úrkomulítið fyrir norðan og austan á morgun, annars bjart með köflum.

Hiti 1 til 14 stig, mildast sunnan heiða.

Á föstudag og laugardag:

Norðaustan 5-13 m/s. Bjart með köflum á V-landi, en skýjað í öðrum landshlutum og stöku skúrir sunnan heiða. Hiti 2 til 12 stig, hlýjast á SV-landi.

Á sunnudag (sjómannadagurinn):

Norðaustlæg átt, skýjað, en úrkomulítið N- og A-lands, en skýjað með köflum um landið SV-vert. Hiti breytist lítið.

Á mánudag og þriðjudag:

Áframhaldandi norðaustlæg átt og fremur svalt. Dálítil rigning eða slydda N- og A-lands, en bjart með köflum á S- og V-landi og líkur á skúrum, einkum síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×