Innlent

Engin íþróttaiðkun fyrir hreyfihömluð börn

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Engin íþróttaiðkun er í boði fyrir hreyfihömluð börn sem veldur vanlíðan og félagslegri einangrun. Þá þarf að huga betur að aðgengismálum en dæmi eru um að þau komist ekki með í skólaferðir þar sem ekki hefur verið hugsað fyrir þörfum þeirra.

Þau Hilmar Lúther Davíðsson og Bergdís Ósk Vilhjálmsdóttir eru bæði með hreyfihömlunarsjúkdóminn CP. Þau voru í sérfræðihópi fatlaðra barna sem félags- og barnamálaráðherra og umboðsmaður barna settu á laggirnar í þeim tilgangi að fá ábendingar frá börnunum um það sem betur má fara þegar kemur að málaflokknum.

Í tillögum hópsins, sem var skilað á dögunum, er talað um fáa kosti til íþróttaiðkunar fyrir börn og unglinga með hreyfihömlun.

„Ég hef æft íþróttir mjög lengi og ég þurfti að hætta því það voru of miklar kröfur og ég hef verið að leita af einhverju fyrir hreyfihamlaða krakka en það er ekki neitt í boði,“ segir Hilmar og bætir við að lélegt aðgengi að hreyfingu og félagsskap vanlíðan og félagslegri einangrun.

Þá kemur fram í skýrslunni að einelti í skólum sé algengt vandamál sem ekki væri tekið nægjanlega föstum tökum. Bæði hafa þau orðið fyrir einelti og segja að málin séu ekki unnin í samstarfi við þolendur. Það þurfi að fræða starfsfólk um einelti, ekki einungis börnin.

Þá kemur fram í skýrslunni að skólarnir þurfi betur að aðgengismálum fyrir fötluð börn og unglinga. „Eins og þegar ég er að fara í skólaferðir þá er eitthvað líkamlegt sem ég get ekki gert. Það heftir mann mjög mikið. Nýlega þá var skólaferð eftir samræmdu prófin og við áttum að fara á skíði og það var engin sem gat farið með mig og þá endaði með því að ég gat ekki farið og ég þurfti að læra allan daginn,“ segir Bergdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×