Samkvæmt upplýsingum kínverska sendiráðsins voru 33 kínverskir ríkisborgarar í rútunni. Fimm til sex séu alvarlega slasaðir en ekki í lífshættu.
Slysið átti sér stað á Suðurlandsvegi við Hofgarða skammt norðan við Fagurhólsmýri klukkan 15:05 í dag, samkvæmt tilkynningu Landspítalans sem var settur á gult viðbúnaðarstig vegna þess. Rútan er frá hópbifreiðafyrirtækinu Trex. Björgunarsveitir úr Öræfum, Selfossi og Höfn voru kallaðar út vegna slyssins.
Grímur Hergeirsson, starfandi lögreglustjóri á Suðurlandi, sagði að þyrla Landhelgisgæslunnar væri nýlögð af stað með fjóra alvarlega slasaða einstaklinga þegar Vísir ræddi við hann að verða hálf sex nú síðdegis. Hann hafði ekki frekari upplýsingar um ástand fólksins.
Aðrir sem voru í rútunni slösuðust minna. Grímur segir að eitthvað hafi verið um beinbrot og aðra áverka. Ekki sé vitað hvernig slysið bar að, annað en að rútan endaði á hliðinni utan vegar. Eftir því sem Grímur kemst næst voru aðstæður á slysstað ágætar.
Auk þyrlu Gæslunnar var þyrla dansks varðskips sem statt er í Reykjavík send austur. Grímur segir að Danirnir hafi boðið fram aðstoð sína og að hún hafi verið þegin. Danska þyrlan flytur hjúkrunarfólk og til greina kemur að hún flytji slasaða af vettvangi ef þörf krefur.
Þá er lítil sjúkraflugvél frá Akureyri væntanleg til lendingar á flugvelli á Fagurhólsmýri. Grímur segir að hún verði væntanlega notuð í flutning á fólki. Flugvél Gæslunnar verður einnig á Höfn og til taks ef flytja þarf fleira fólk á sjúkrahús í Reykjavík.

Þyrla danska varðskipsins er nú á leið austur og á að lenda nærri slysstað um 18:40. Um borð er greiningarsveit frá Landspítalanum. Ásgrímur segir óljóst hvort þyrlan flytji einhvern á sjúkrahús eða hvert verkefni hennar verður.
