Fótbolti

Vertonghen fékk ekki heilahristing

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Vertonghen fékk ekki heilahristing en það leið næstum yfir hann þegar hann fór af leikvelli
Vertonghen fékk ekki heilahristing en það leið næstum yfir hann þegar hann fór af leikvelli vísir/getty
Jan Vertonghen fékk ekki heilahristing í leik Tottenham og Ajax í Meistaradeild Evrópu á þriðjudag.

Vertonghen fékk þungt höfuðhögg eftir um hálftíma leik í fyrri undanúrslitaleik Tottenham og Ajax svo úr blæddi hressilega. Hann fékk aðhlynningu á vellinum en fékk leyfi til að halda áfram leik.

Mjög stuttu seinna kom í ljós að hann gat ekki haldið áfram og þurfti að hjálpa honum niður í leikmannagöngin þar sem hann gat ekki gengið óstuddur.

Læknateymi Tottenham hefur fengið gagnrýni fyrir að leyfa Vertonghen aftur inn á völlinn en félagið staðfesti í gærkvöld að belgíski varnarmaðurinn hafi ekki fengið heilahristing.

„Eftir ítarlega skoðun og eftirlit síðustu 48 klukkutímana af bæði okkar læknateymi og óháðs taugasérfræðings með sérstaka áherslu á íþróttatengda heilahristinga þá hefur verið úrskurðað að Jan Vertonghen fékk ekki heilahristing,“ sagði í tilkynningu frá Tottenham.

„Belgíski varnarmaðurinn fékk högg á nefið og blæddi mikið úr. Hann var dæmdur leikhæfur eftir skoðun á vellinum þar sem öllum verkferlum og reglum knattspyrnusambandsins var fylgt.“

Sérfræðingurinn ráðlagði Vertonghen að taka stuttan hvíldartíma áður en hann fari að æfa á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×