Innlent

Rappari dæmdur fyrir ránstilraun í Skeifunni

Andri Eysteinsson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í vikunni.
Dómurinn var kveðinn upp í vikunni. Vísir/Hanna
Tónlistarmaðurinn Kristmundur Axel Kristmundsson, sem til að mynda sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2010, var í vikunni dæmdur til sex mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar vegna brota hans sem hann játaði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Kristmundi er gert að hafa, ásamt öðrum manni, ógnað manni með hníf og hótunum um líkamsmeiðingar í tilraun til þess að hafa af honum fé. Atburðurinn gerðist fyrir utan Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í Skeifunni, föstudaginn 29. september 2017.

Mennirnir héldu því næst með brotaþola í hraðbanka sem staðsettur er í verslun Hagkaups í Skeifunni og þar neytt hann til að taka út pening, á meðan að maðurinn reyndi að taka út fé ógnaði Kristmundur manninum með hníf. Í framhaldi af því veittust mennirnir að fórnarlambi sínu á bílastæði fyrir utan verslunina og gengu í skrokk á honum.

Kristmundur játaði brot sín fyrir dómi og hefur síðan að atvikið varð tekið sig á og lokið vímuefnameðferð, eftir því sem segir í dómnum. Fullnustu refsingar hans var frestað og fellur hún niður haldi rapparinn skilorð í tvö ár frá uppkvaðningu dómsins.

Kristmundur hefur áður komist í kast við lögin vegna umferðar- og fíkniefnalagabrota, þá var hann í október síðastliðnum dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi vegna brots gegn valdstjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×