Handbolti

Hrafnhildur tekur sér frí frá þjálfun: „Ætla að prófa að stjórna mínu lífi sjálf“

Benedikt Grétarsson skrifar
Hrafnhildur Skúladóttir.
Hrafnhildur Skúladóttir. vísir/ernir
Hrafnhildur Skúladóttir viðurkenndi að slæm byrjun ÍBV hefði kostað alla möguleika gegn Fram, þegar Íslandsmeistararnir unnu ÍBV 34-29 og einvígi liðana 3-0.

„Þetta er bara það sama og gerist í seinasta leik þegar við hleypum þeim í góða forystu og það er bara hrikalega erfitt að þurfa að elta svona allan leikinn.

Við gerum okkur sekar um ömurleg mistök sem við ætluðum að forðast og t.d. einhver 11 hraðupphlaup í andlitið í fyrri hálfleik. Eftirleikurinn varð svo frekar auðveldur fyrir þær,“ sagði Hrafnhildur eftir leik.

„Það er flott að skora 29 mörk en á sama tíma er alltof mikið að fá á sig 34 mörk. Þetta var erfitt en liðið var alveg að gefa sig á fullu í þetta og það er jákvætt. Það var engin uppgjöf í stelpunum og það er alltaf gott að sjá sem þjálfari.“

Hrafnhildur ætlar að taka langþráða hvíld frá handbolta, nú þegar þessu tímabili er formlega lokið.

„Ég er búin að ákveða að fara í pásu frá þjálfun og setja sjálfa mig og fjölskylduna í fyrsta sæti. Mín framtíð er því ráðin, a.m.k. næsta árið,“ sagði Hrafnhildur.

En er ekki von á þessari miklu keppnismanneskju aftur í þjálfun?

„Ég vona svo sannarlega að ég snúi aftur seinna í þjálfun. Ég var búin að ákveða eftir að ég hætti að spila að gefa mér sjálfri og ekki síst fjölskyldunni meiri tíma.

Handboltinn hefur stjórnað öllu mínu lífi allan minn feril og ég hef aldrei getað skipulagt neitt vegna handboltans. Maður fær júlí sem frímánuð og þá er maðurinn minn að vinna á fullu, þannig að maður er ekkert að skjótast í helgarferð eitthvað eða gera nokkurn skapaðan hlut.“

„Mig hlakkar mikið til að upplifa örlítinn tíma fyrir sjálfa mig og að fá að stjórna sjálfri mér. Eins stjórnsöm og ég er, þá hef ég ekki haft mikla stjórn á mínu eigin lífi,“ sagði Hrafnhildur brosandi að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×