Innlent

Efla eftirlit með útlendingum

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
VIS-kerfið heldur utan um ferðir fólks innan Schengen-svæðisins.
VIS-kerfið heldur utan um ferðir fólks innan Schengen-svæðisins.
Heimilt verður að leita að og bera kennsl á útlendinga sem hingað koma á grundvelli fingrafaraleitar í VIS-upplýsingakerfinu samkvæmt nýju reglugerðarákvæði sem dómsmálaráðherra hefur birt til kynningar á samráðsvef stjórnvalda. Um er að ræða eftirlitskerfi á vegum Evrópusambandsins sem ætlað er að koma auga á ólöglega innflytjendur en kerfið getur borið kennsl á ferðir fólks um Schengen-svæðið eftir að vegabréfsáritun þess rennur út.

Í kynningu á samráðsvef Stjórnar­ráðsins segir að full þörf sé talin á að fingrafaraleit fari fram í VIS-upplýsingakerfinu í ljósi fjölgunar umsækjenda um alþjóðlega vernd sem koma frá ríkjum þar sem gerð er krafa um vegabréfsáritun og umsækjenda sem eru án skilríkja, framvísa fölsuðum skilríkjum eða skilríkjum annars manns.

Samkvæmt reglugerðinni verður það Útlendingastofnunar að taka ákvörðun um hvort fingrafaraleit skuli fara fram en lögreglu yrði falið að annast framkvæmdina og senda gögn þar um til ríkislögreglustjóra. Ríkislögreglustjóri mun annast samskipti við miðlægan gagnagrunn VIS-upplýsingakerfisins og upplýsir Útlendingastofnun um niðurstöðu leitar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×