Erlent

Myrtu börn sín þegar þær óku bílnum fram af kletti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sarah og Jennifer Hart ásamt börnum sínum á samkomu til stuðnings forsetaframbjóðandanum Bernie Sanders í Vancouver í Kanada árið 2016.
Sarah og Jennifer Hart ásamt börnum sínum á samkomu til stuðnings forsetaframbjóðandanum Bernie Sanders í Vancouver í Kanada árið 2016.
Ljóst þykir að hjón hafi vísvitandi orðið sér og sex börnum sínum að bana þegar þær óku bíl, með fjölskylduna innanborðs, fram af kletti í Kaliforníu í Bandaríkjunum í mars í fyrra. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar dánardómstjóra á slysinu.

Hjónin, Jennifer og Sarah Hart, óku bílnum fram af klettinum nokkrum dögum eftir að barnaverndaryfirvöld hófu rannsókn á meintri vanrækslu þeirra á börnunum sex, sem öll eru ættleidd. Talið er að konurnar hafi flúið heimili sitt með börnin strax eftir heimsókn barnaverndarstarfsmanna.

Lík Hart-hjónanna fundust í bílnum við rætur klettsins. Lík fimm barna þeirra fundust ýmist við bílinn eða í sjónum nokkru síðar. Lík sjötta barnsins, hins fimmtán ára Devonte, hefur enn ekki fundist.

Fram kom fyrir dómi að Sarah hafi leitað að „drukknun“ á Internetinu áður en þær lögðu af stað og að Jennifer, sem sat við stýri, hafi vísvitandi stigið á bensíngjöfina og hraðað bílnum í átt að klettinum. Þannig hafi ekki verið um að ræða slys heldur morð.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.

Nánari upplýsingar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×