Handbolti

Landsmeistari í níunda sinn á tíu árum í atvinnumennsku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron hefur unnið á þriðja tug titla á ferli sínum í atvinnumennsku.
Aron hefur unnið á þriðja tug titla á ferli sínum í atvinnumennsku. vísir/getty
Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona urðu í gær Spánarmeistarar í handbolta eftir stórsigur á Guadalajara, 40-24, á heimavelli. Aron skoraði fjögur mörk í leiknum.

Þetta er níunda árið í röð sem Barcelona verður spænskur meistari og 26 sinn alls. Liðið hefur haft ótrúlega yfirburði á Spáni undanfarin ár og varla tapað leik. Börsungar hafa unnið alla 23 deildarleiki sína í vetur.

Aron gekk í raðir Barcelona haustið 2017 og hefur tvisvar orðið Spánarmeistari með liðinu auk annarra titla.

Á tíu árum í atvinnumennsku hefur Aron níu sinnum orðið landsmeistari. Hann varð fimm sinnum þýskur meistari með Kiel, tvisvar ungverskur meistari með Veszprém og nú tvisvar spænskur meistari með Barcelona. Níu landstitlar á tíu árum hjá Hafnfirðingnum.

Tímabilið 2010-11 er það eina þar sem Aron hefur ekki orðið landsmeistari með sínu félagsliði. Kiel sá þá á eftir þýska meistaratitlinum til Hamburg.

Auk níu landstitla hefur Aron unnið fjölmarga aðra titla með sínum félagsliðum. Hann var m.a. í sigurliði Kiel í Meistaradeild Evrópu 2010 og 2012. Aron gæti bætt þriðja Meistaradeildartitlinum í safnið í vor en Barcelona hefur leikið liða best í keppninni í vetur og þykir líklegt til afreka.


Tengdar fréttir

Aron spænskur meistari í annað sinn

Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona tryggðu sér deildarmeistaratitilinn á Spáni í dag með stórsigri á Gua­dalajara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×