Í gegnum samfélagsmiðla og sjónvarpsþættina Game of Thrones er það á góðri leið með að verða eitt frægasta fjall Íslands. Þarna er orðinn til einn heitasti ferðamannastaður Snæfellsness, ef ekki landsins, og bílastæði við Kirkjufellsfoss er sprungið. Vetrarríki hindrar ekki ferðamenn að vilja sjá staðinn.

Og þegar bílastæðið dugar ekki leggja ferðamenn bara í vegkantinum meðfram þjóðveginum. Þarna eru ferðamenn á vappi á veginum á sama tíma og bílar, rútur og trukkar og meðan bæjarstjórinn er í viðtali við Stöð 2 blússar flutningabíll framhjá. Við skynjum að þarna er slysahætta.
„Hér er bara hættulegt. Það er bara þannig,“ segir Björg.

„Landeigendur eru alls ekkert í ferðaþjónustu en fá þetta verkefni bara í fangið,“ segir Björg. Þá verði flókið samspil milli landeigenda og þeirra hagsmuna, viðkomandi sveitarfélags og svo ríkisins í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.
En núna stendur til að bæta úr. Framkvæmdir eru að hefjast við nýtt og stærra bílastæði á öðrum stað vestar. Jafnframt verða gerðir stígar og pallar við fossinn.

-Hvað segir bæjarstjórinn við þessu?
„Ég segi pass. En er þetta ekki bara það sem við höfum gert í áraraðir, - að míga upp í vindinn, eins og maðurinn sagði.“
Fjallað verður nánar um það hvaða áhrif þessi frægð Kirkjufells er að hafa á Grundarfjörð í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 á mánudagskvöld.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: