Erlent

Öldungadeildarþingkona stígur fram og segist hafa verið nauðgað í flughernum

Andri Eysteinsson skrifar
Martha McSally þingkona Repúblikana í Arizona.
Martha McSally þingkona Repúblikana í Arizona. Getty/Mark Wilson
Öldungadeildarþingkonan Martha McSally, sem var fyrst bandarískra kvenna til þess að fljúga orrustuþotu í bardaga, greindi frá því í dag að henni hafi verið nauðgað á flughersárum hennar. CNN greinir frá.

McSally, sem situr í Öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Arizona, sagðist hafa skammast sín eftir nauðgunina og því hafi hún ekki tilkynnt nauðgunina til yfirmanna sinna eða kært. McSally sagðist einnig hafa skort trú á réttarkerfið.

Repúblikaninn McSally greindi samstarfsmönnum sínum og heimsbyggðinni frá þessu á fundi þingnefndar sem ætlað er að taka á kynferðisofbeldi í bandarískum herdeildum.

McSally sem náði að titli ofursta í bandaríska flughernum  sagði að hærra settur hermaður hafi nauðgað henni, „Við höfum gert margt til þess að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi í hernum en það er enn langt í land, sagði þingmaðurinn sem situr nú sitt fyrsta kjörtímabil.

McSally er önnur öldungardeildarþingkonan sem stígur fram á árinu og greinir frá því að hafa verið nauðgað. Jonie Ernst sem situr í Öldungadeildinni fyrir Repúblikanaflokkinn í Iowa greindi frá því í janúar að henni hafi verið nauðgað á námsárum hennar í Iowa State háskólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×