Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn, segir að það taki tíma að setja atburðarásina saman og lögreglan hafi óljósar upplýsingar um það sem hafi gerst.
„Þetta er allt á rannsóknarstigi enn þá og við erum að viða að okkur upplýsingum og fá einhverja heildarmynd á þetta,“ sagði Sveinn Kristján í samtali við fréttastofu nú skömmu fyrir hádegi.

„Það er vitni sem horfir á það, frekar trúverðugt vitni, sem sér þetta. Annað höfum við svo sem ekki. Við erum búin að sjá í nótt hluti úr bíl koma upp við kantinn fyrir neðan kirkjuna sem bendir til þess að eitthvað hafi farið en 100 prósent staðfesting er ekki alveg í sjálfu sér. En mjög miklar líkur, meiri líkur en minni, og við reiknum með að svo sé,“ segir Sveinn Kristján en í gær var greint frá því að lögreglan telji sig vita hver var í bílnum.
Veðurspáin er frekar leiðinleg fram eftir degi og er veðrið mjög slæmt núna að sögn Sveins Kristjáns. Það á hins vegar að lægja með kvöldinu og er þá líklegt að bætt verði í leitina hafi hún ekki þá þegar skilað árangri.