Fótbolti

Ramos kærður fyrir sækja viljandi gult spjald

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ramos er enginn nýgræðingur og kann leikinn vel
Ramos er enginn nýgræðingur og kann leikinn vel vísir/getty
Sergio Ramos hefur verið ákærður af UEFA fyrir að fá viljandi gult spjald í leik Real Madrid og Ajax í Meistaradeild Evrópu.

Ramos braut á Kasper Dolberg á 89. mínútu leiks liðanna í Hollandi fyrr í mánuðinum þegar staðan var 2-1 fyrir Real. Eftir leikinn sagði hann við blaðamenn að „það væri lygi ef hann segðist ekki hafa gert þetta viljandi.“

Seinna sagði hann að hann hefði átt við að hann braut viljandi á Dolberg en hefði ekki viljandi ætlað að fá gult spjald. Ajax hafi verið í hættulegri skyndisókn og hann hafi þurft að brjóta.

Ummæli Ramos strax eftir leikinn voru hins vegar nóg til þess að UEFA rannsakaði málið, enda mikið hentugra fyrir varnarmanninn að taka út leikbann vegna fjölda gulra spjalda í næsta leik en seinna í keppninni.

Málið verður tekið fyrir af aganefnd á morgun, 28. febrúar, en Ramos gæti átt yfir höfði sér tveggja leikja bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×