Umfjöllun og viðtöl: Fram 39-27 ÍBV | Skellur hjá ÍBV aðra vikuna í röð

Gabríel Sighvatsson skrifar
Karen Knútsdóttir
Karen Knútsdóttir Vísir/Bára
Fram tók á móti ÍBV í Framhúsi í 16. umferð Olísdeildar kvenna. Þetta var þriðji leikur liðanna á tímabilinu.

Fram tók frumkvæði strax í byrjun leiks og var fljótt ljóst í hvað stefndi. Fram sótti látlaust á Eyjakonur og leiddu í hálfleik 20-10.

Eftir það var ekki aftur snúið fyrir ÍBV og seinni hálfleikur snerist um að lágmarka skaðann. Það tókst ekki einu sinni.

Fram hélt áfram á fullu gasi og átti ÍBV ekki séns. Lokatölur 39-27 fyrir Fram.

Bára Dröfn Kristinsdóttir, ljósmyndari Vísis, var í Safamýrinni í kvöld og tók myndirnar með fréttinni.

vísir/bára
Af hverju vann Fram?

Heimakonur voru mjög sterkar í kvöld og mættu mjög vel til leiks. Sóknin leysti varnarleik ÍBV frábærlega og staðan var 20-10 í hálfleik, bæði vörn og sókn að smella hjá Fram.

Sóknarleikurinn hélt áfram í seinni hálfleik og átti ÍBV nánast enga von. Vörnin var ekki að ná að stöðva sóknarleik Fram og því fór sem fór.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur ÍBV var skugginn af sjálfum sér í dag. Liðið sem hefur vörn sem aðalsmerki sitt leit út eins og 1. deildar lið í varnarleik. Það er ótrúlegt að svona lið fái á sig 39 mörk á 60 mínútum.

Sóknin skoraði 27 mörk sem er yfirleitt nóg hjá ÍBV. Það eina sem hægt er að kvarta yfir hjá Fram er vörnin í seinni hálfleik. Þær urðu smá værukærar og fengu á sig 17 mörk en sóknin var svo góð að það skipti engu máli.

Hverjir stóðu upp úr?

Það var engin markvarsla í kvöld. Markahæstar voru Steinunn Björnsdóttir, Unnur Ómarsdóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir, allar Fram, með 8 mörk.

Það voru þrjár með 5 mörk hjá ÍBV, Ester Óskarsdóttir, Greta Kavaliuskaite og Ásta Björt Júlíusdóttir en úr alltof mörgum skotum.

Hvað gerist næst?

ÍBV á næst bikarleik gegn KA/Þór og þurfa að rífa sig í gang eftir tvo stóra skelli í röð.

Fram er einnig með í bikarnum og sækir Selfyssinga heim í Hleðsluhöllina. Sæti í undanúrslitunum er í boði.

vísir/bára
Hrafnhildur: Þetta á ekki að geta gerst

Hrafnhildi Skúladóttur, þjálfara ÍBV, fannst mjög leiðinlegt að horfa upp á frammistöðuna hjá sínum leikmönnum.

„Þetta var í sjálfu sér bara svolítið vonlaust.”

„Við fáum á okkur 39 mörk í dag. Við þurfum að fara mjög, mjög, mjög langt aftur í tímann til að finna þessa markatölu á okkur. Við erum með ótrúlega mikið af mjög góðum varnarmönnum, þetta á ekki að geta gerst hjá okkur,” sagði Hrafnhildur.

ÍBV hefur ekki fengið svona mörg mörk á sig á þessu tímabili og fæstir muna eftir því hvenær liðið fékk svona mörg mörk á sig seinast.

„Þetta er fjórða árið mitt og ég man ekki eftir svona tölu áður. Það klikkaði mjög margt hjá okkur í dag og við eigum að geta verið með hörku varnarlið, við vorum með hörku varnarlið fyrir áramót. Nú er þetta farið að snúa um sjálfstraust held ég, okkur skortir sjálfstraust.”

„Þetta er mjög vont. Næsti leikur okkar er bikarleikur gegn KA sem er búið að ganga mjög vel undanfarið. Við erum að fara í rosalega mikilvægan leik og með þetta á bakinu, það verður erfitt. Nú verðum við að sýna úr hverju við erum gerðar.”

vísir/bára
Stefán: Hefði viljað fá færri mörk í seinni hálfleik

Fram spilað mjög vel í kvöld og Stefán Arnarson, þjálfari Fram, hafði ekki yfir mörgu að kvarta að leikslokum.

„Ótrúlega ánægður með fyrri hálfleik, skorum 20 mörk og fáum á okkur 10,” sagði Stefán sem var samt ekki nógu ánægður með vörnina í seinni hálfleik.

„Við vorum ekki alveg nógu einbeittar varnarlega í seinni hálfleik, fáum á okkur 17 mörk sem ég er ekkert rosalega glaður með en frábær sigur engu að síður.”

„Við teljum okkur vera með gott sóknarlið og það virkaði í dag. Þetta var góður leikur af okkar hálfu en ég hefði viljað fá aðeins færri mörk í seinni hálfleik. 39 er mjög gott en 27 mörk er kannski aðeins of mikið en samt er ég mjög ánægður með sigurinn.”

Stefán bjóst alls ekki við þessum markafjölda á móti ÍBV, sem er yfirleitt þekkt fyrir sterka vörn.

„Það eru alltaf erfiðir leikir á móti ÍBV en þær voru bara ekki að ná sér á strik í dag og við vorum betri. Ég set þetta alltaf eins upp og við erum með gott lið, ef við náum að fókusa í 60 mínútur í vörn og sókn. Við náum því nokkurn veginn sóknarlega í dag og varnarlega í svona 40 mínútur.”

„Við erum búin að tryggja okkur í úrslitakeppnina sem ég er mjög ánægður með og svo kemur það bara í ljós hvar við endum.”

 

vísir/bára
Steinunn: Bjóst aldrei við að vinna ÍBV svona stórt

Steinunn Björnsdóttir, gat verið ánægð með dagsverkið en hún skoraði 8 mörk í 39-27 sigri á ÍBV.

„Við mættum mjög einbeittar í þennan leik og náum forystu í hálfleik. Við hefðum kannski viljað fá aðeins færri mörk á okkur en við skorum 39 mörk. Þetta var hraður leikur og mikið skorað.”

Steinunn mundi aðeins eftir einu skipti sem liðið hafði skorað svona mörg mörk í leik og hvað þá á móti ÍBV.

„Ég held við höfum náð svona markafjölda á móti Stjörnunni í útileik, einu sinni, en það er ekki oft sem þetta gerist.”

„Þetta kemur manni mikið á óvart en við náðum að leysa vörnina vel í dag og höfum gert það á þessu tímabili. Þær voru ekki að spila sinn leik og við keyrðum bara á þær.”

„Ég held að við höfum verið vel undirbúnar og búnar að æfa mikið á móti þessari vörn og þekkjum hana vel. Ég veit ekki hvernig þeirra undirbúningur var en ég bjóst aldrei við að vinna ÍBV svona stórt.”

Eina sem hefði verið hægt að bæta í þeirra leik var vörnin í seinni hálfleik.

„Við fáum á okkur 10 mörk í fyrri hálfleik sem er bara gott en 17 mörk í seinni hálfleik er alltof mikið. Það er eitthvað sem við þurfum að vinna í, reyna að halda haus og vera skynsamar varnarlega,”

„Það var að sjálfsögðu markmiðið okkar og það er gott að vera komin þangað. Nú er bara spurning að reyna að enda efst og ná heimavallarrétti.”

Fram tryggði sér sæti í úrslitakeppninni með sigrinum en stefnan er sett hærra þar á bæ.

„Þótt að maður segi það ekki oft í miðlum, þá er stefnan að sjálfsögðu sett á deildarmeistaratitilinn.” sagði Steinunn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira