Skýrsla um starfsumhverfi svokallaðra smálánafyrirtækja var kynnt í ríkisstjórn í morgun. Starfshópurinn sem vann skýrsluna telur ekki þörf á því að smálánastarfsemi verði gerð leyfisskyld þrátt fyrir að þróunin sé sú annars staðar á Norðurlöndum.
„Við erum að reyna að ná utan um starfsemi sem fylgir ekki lögum í dag. Þrátt fyrir að við myndum banna það enn frekar þá eru allar líkur á því að þeir myndu ekki fylgja lögum,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdísi finnst skýrslan góð þar sem greint sé á milli annars vegar löglegrar lánastarfsemi og nýsköpunar í fjártækni og hins vegar smálána sem sé verið að reyna að ná utan um.

Tólf aðgerðir til að skýra rétt neytenda
Meðal aðgerða sem starfshópurinn leggur til er að skerpa á því við lög hvaða lands eigi að miða þegar smálán eru veitt milli landa. Meðal annarra aðgerða að lánveitendur veiti frekari upplýsingar til eftirlitsaðila og að lánveitendur megi ekki veita neytendalán nema að skrá starfsemina hjá eftirlitsaðila.Þá skal skoða hvort takmarka eigi afgreiðslu ákveðinna neytendalána á tilteknum tíma sólarhringsins. Einnig er nefnt hvort takmarka eigi markaðssetningu lána á fjarskiptamiðlum.