Enski boltinn

Afskaplega rýr uppskera hjá Arsenal undanfarnar vikur

Hjörvar Ólafsson skrifar
Aaron Ramsey og félagar hafa átt erfitt uppdráttar
Aaron Ramsey og félagar hafa átt erfitt uppdráttar vísir/getty
Tap Arsenal gegn Manchester City í gær gerir það að verkum að Skytturnar hans Unai Emery hafa beðið ósigur í fjórum af síðustu níu deildarleikjum sínum og gert eitt jafntefli. Á meðan þetta rysjótta gengi Arsenal hefur staðið yfir hafa lærisveinar Ole Gunnars Solskjær borið sigur úr býtum í átta af síðustu níu deildarleikjum sínum.

Manchester United hefur skotið Arsenal ref fyrir rass með þessum góða kafla sínum og fram undan er hörð barátta milli Chelsea sem er með 50 stig í fjórða sæti deildarinnar, Manchester United sem situr í fimmta sæti með 48 stig og Arsenal sem er í sjötta sæti með 47 stig um fjórða og síðasta sætið sem veitir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Rót vandans hjá Arsenal er hriplek vörn liðsins, en það hefur fengið 36 mörk á sig og ekkert lið í efstu sex sætum deildarinnar hefur fengið jafn mörg mörk á sig. Emery vill spila boltanum út úr vandræðum hvar sem það er á vellinum. Liðinu hefur gengið misvel upp við uppspil úr vörn liðsins. Það þarf tæknilega getu og góðan leikskilning til þess að spila boltanum út úr pressu.

Setja má spurningarmerki við það að leikmenn á borð við Alex Iwobi búi yfir fyrrgreindum hæfileikum, en hann missti boltann á afar hættulegum stað í fyrsta marki Manchester City í leiknum. Það tekur tíma að aðlaga leikmann leikstíl þar sem þess er krafist að boltanum sé spilað út úr erfiðum stöðum. Arsenal hefur farið fram í því, en hefur þó ekki tekist að fullkomna þá list.

Emery gekk ágætlega að bólstra miðsvæðið með því að fá í sínar herbúðir Frakkann Matteo Guendouzi og Úrúgvæjann Lucas Torreira síðasta sumar og framherjaparið Pierre-Emerick Aubameyang og Alexandre Lacazette getur velgt hvaða vörn sem er undir uggum. Það er aftur á móti deginum ljósara að Emery þarf að taka til hendinni og kaupa leikmenn fyrir öftustu línu liðsins næsta sumar.

Liðið vantar heimsklassa miðvörð sem getur staðið sig vel og sýnt stöðugleika í gegnum heilt keppnistímabil. Varnarmennirnir í núverandi leikmannahópi Arsenal eru bæði mistækir og eiga sjaldnast tvo góða leiki í röð hitti þeir á góðan leik inn á milli slöku leikjanna sinna.

Þá gengur Arsenal bölvanlega á útivelli en frá því að 2018 gekk í garð hefur liðið beðið ósigur í 12 útileikjum í deildinni og einungis Huddersfield Town með 13 tapleiki og Brighton með 14 státa af verri árangri.

Það er aldrei góðs viti að knattspyrnustjóri leggi ekki traust á sinn launahæsta leikmann eins og raun ber vitni hjá Arsenal þessa stundina. Þýski sóknartengiliðurinn Mesut Özil sem talið er að Emery vilji losna við til þess að geta fengið til sín aðra týpu af leikmanni var einu sinni sem oftar ónotaður varamaður í tapinu gegn Manchester City í gær.

Denis Suárez sem Emery fékk á láni frá Barcelona í janúarglugganum fékk það verkefni að hressa upp á sóknarleik Arsenal í leiknum. Það er spurning hvort þessi skipting veiti vísbendingu um að tækifærum Özil sem voru af skornum skammti á fyrri hluta leiktíðarinnar verði enn færri á seinni hlutanum.

Það er huggun harmi gegn fyrir stuðningsmenn Arsenal að næsta verkefni liðsins er leikur gegn Huddersfield Town, botnliði deildarinnar, sem var fallbyssufóður fyrir leikmenn Chelsea um helgina. Huddersfield Town hefur einungis skorað 13 deildarmörk á yfirstandandi leiktíð og takist leikmönnum Arsenal ekki að halda leikmönnum botnliðsins í skefjum er þeim ekki viðbjargandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×