Handbolti

Þóri býðst samningur fram yfir Ólympíuleikana 2024

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þórir á EM í desember.
Þórir á EM í desember. vísir/epa
Vonbrigðin á EM í handbolta kvenna í desember hefur engin áhrif á Þóri Hergeirsson, landsliðsþjálfara Noregs, sem hefur gert magnaða hluti með norska liðið.

Hann hefur stjórnað liðinu í tíu ár og nú býðst honum nýr samningur, fram yfir Ólympíuleikana 2024 sem fara fram í Frakklandi.

Þetta staðfesti forseti handboltasambands Noregs í samtali við norska fjölmiðilinn, VG, en núverandi samningur Þóris við norska sambandið rennur út í lok árs 2020.





Kåre Geir Lio, forseti sambandsins, segir í samtali við VG að þeir hafi rætt við Þóri um framlengingu samningsins um nokkurt skeið en sest verður að samningaborðinu í febrúar.

Þórir hefur starfað fyrir norska handknattleikssambandið í 25 ár. Fyrst var hann þjálfari yngri landsliða áður en hann kom inn í teymi aðalliðsins. Hann tók svo við liðinu árið 2009.

Árangurinn undir stjórn Þóris er magnaður. Noregur hefur unnið fimm gull, tvö silfur og tvö brons á síðustu ellefu stórmótum en liðið endaði í fimmta sæti á EM kvenna í Frakklandi í desember mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×