Þegar það mál stóð sem hæst síðasta haust fór lítið fyrir formanni KSÍ, Guðna Bergssyni, og hann tjáði sig ekki um málið fyrr en löngu eftir að því var lokið.
Málið hófst þann 17. ágúst og endaði þann 20. september er Völsungi var dæmdur 3-0 sigur eftir að liðin höfðu mætt á sitt hvorn völlinn. Guðni tjáði sig þann 2. október í fyrsta sinn um málið.
Margir söknuðu þess að formaður KSÍ skildi ekki taka í taumana í því máli og leiða það farsællega til lykta. Hann hélt sig aftur á móti til hlés og lét framkvæmdastjóra sambandsins, Klöru Bjartmarz, um að svara fyrir málið. Guðni var spurður í þættinum hvort það væri ekki eðlilegt að leiðtogi sambandsins hefði stigið miklu fyrr inn og leitt málið til farsælla lykta?
„Varðandi Völsungs-Hugins málið þá fór það í ákveðinn farveg. Það er mikilvægt er mál fara í slíkan farveg að þau fái eðlilegan framgang í þeim farvegi. Þá er varhugavert að blanda sér í málin,“ sagði Guðni í kappræðunum á Stöð 2 Sport og Vísi í gær.
„Auðvitað ræddi ég við viðkomandi félög um málið og við reyndum að miðla málum og vorum að leita eftir sameiginlegri yfirlýsingu til að sætta málið. Ég held ég hafi hitt á bæði þessi félög síðar.“
Guðni sagði í viðtalinu þann 2. október að hann „myndi örugglega fara í heimsókn og ræða betur við menn“. Er gengið var á hann í kappræðunum í gær kom í ljós að hann gerði það ekki fyrr en nýlega í sinni kosningabaráttu.
Sjá má umræðu um þetta mál hér að neðan.