Innlent

Leit að konu í Skaftafelli: Var á ferð með fjölskyldu sinni

Birgir Olgeirsson skrifar
Er leitarsvæðið í Skaftafelli stórt að sögn björgunarsveitarmanna.
Er leitarsvæðið í Skaftafelli stórt að sögn björgunarsveitarmanna. Loftmyndir
Konan sem leitað er að í Skaftafelli er erlend og á sextugs aldri. Hún var á ferðalagi með fjölskyldunni sinni um landið áður en hún varð viðskila við hópinn um miðjan dag. Að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á höfuðborgarsvæðinu, er enn verið að bæta í leitarhópa og verður leitað fram á nótt.

Áhöfnin á TF-LÍF, þyrlu Landhelgisgæslunnar tekur þátt í leitinni að konunni. Þyrlan tók á loft frá Reykjavík skömmu fyrir klukkan sjö í kvöld og var komin á vettvang um klukkustund síðar. Áhöfn þyrlunnar hefur því verið við leit í kvöld en þyrlunni var flogið til Hafnar til að sækja eldsneyti og sneri svo aftur á leitarsvæðið.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar sagði í samtali við Vísi fyrr í kvöld að 27 björgunarsveitarhópar, sem telji um 100 manns, taki þátt í aðgerðum. Var kallað eftir auka mannskap frá björgunarsveitum í Árnessýslu í vestri til Vopnafjarðar í austri. Flestir björgunarsveitarmanna fara um á fæti en auk annarra tækja er reynt að nota hitamyndavél.

Þá verða einhverjir björgunarsveitarmenn með leitarhunda með sér og dróna.

Á ellefta tímanum í kvöld var ákveðið að kalla út björgunarsveitarfólk af höfuðborgarsvæðinu en á þriðja hundrað manns tekur þátt í aðgerðinni. 

Fyrr í kvöld tókst að miða út síma konunnar sem gaf einhverjar vísbendingar um för hennar en svæðið sem þarf að leita á er afar stórt.

Að sögn Davíðs var konan ágætlega búin fyrir gönguferð í þjóðgarðinum en spáð er versnandi veðri á svæðinu í nótt. 

Áætlar björgunarsveitarfólk að leita fram eftir nóttu en áherslur í leit gætu breyst ef veðrið versnar til muna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×