Handbolti

Arnór er svekktur en þakklátur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson í leik á HM.
Arnór Þór Gunnarsson í leik á HM. Getty/TF-Images
Arnór Þór Gunnarsson mun ekki koma meira við sögu með íslenska landsliðinu á HM í handbolta. Það tilkynnti hann á Twitter-síðunni sinni í morgun.

Arnór Þór fór meiddur af velli snemma í síðari hálfleik í tapleiknum gegn Þýskalandi í gær. Þá hafði hann skorað sex mörk, þar af tvö úr vítum. Arnór freistaði þess að skora úr víti eftir að hann fór meiddur af velli en Andreas Wolff varði frá honum.

Arnór er ásamt Emil Feuchtmann frá Chile og Spánverjanum Ferran Sole fjórði markahæsti leikmaður heimsmeistarakeppninnar með 37 mörk. Skotnýting Arnórs Þórs var sérstaklega góð en hann nýtti 82 prósent skotanna sinna.

Aron Pálmarsson fór einnig meiddur af velli í gær með tak í náranum. Hann verður ekki með gegn Frakklandi í kvöld en ekki er útilokað að hann verði aftur kallaður í hópinn fyrir leik Íslands gegn Brasilíu á miðvikudag.

Leikur Íslands og Frakklands á HM í handbolta hefst klukkan 19.30 í kvöld.








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×