Erlent

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn þroskaskertri konu sem ól barn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þann 29. desember fæddi konan heilbrigðan dreng. Starfsfólk stofnunarinnar vissi ekki að hún væri ólétt fyrr en fæðingin hófst.
Þann 29. desember fæddi konan heilbrigðan dreng. Starfsfólk stofnunarinnar vissi ekki að hún væri ólétt fyrr en fæðingin hófst. AP/Ross D. Franklin
Hjúkrunarfræðingur sem starfaði á Hacienda Healthcare-hjúkrunarheimilinu í Arizona í Bandaríkjunum hefur verið handtekinn og ákærður fyrir kynferðisbrot. Maðurinn er grunaður um að hafa nauðgað alvarlegra þroskaskertri konu á hjúkrunarheimilinu með þeim afleiðingum að hún ól barn í desember síðastliðnum.

Sjá einnig: „Við höfðum ekki hugmynd um að hún væri ólétt“

NBC-fréttastofan hefur eftir lögregluyfirvöldum í Phoenix að hinn 36 ára Nathan Sutherland hafi verið ákærður fyrir kynferðisofbeldi og ofbeldi gegn ósjálfráða einstaklingi. Sutherland vann sem hjúkrunarfræðingur á hjúkrunarheimilinu, þar sem konan hafði legið í áratug.

Ekki í dái en alvarlega þroskaskert

Þolandinn er 29 ára gömul kona sem ól heilbrigt sveinbarn þann 29. desember síðastliðinn. Í fyrstu fréttum af málinu sagði að konan hefði verið í dái í frá þriggja ára aldri.

Þetta var leiðrétt í yfirlýsingu sem fjölskylda konunnar sendi frá sér í vikunni en þar segir að konan sé ekki í dái heldur alvarlega þroskaskert sökum floga sem hún fékk á barnsaldri. Hún geti ekki talað en hafi takmarkaða hreyfigetu í höndum, fótum og höfði. Þá bregðist hún við hljóðum og geti sýnt svipbrigði.

Málið vakti mikinn óhug og hneykslan þegar fyrst var fjallað um það í byrjun mánaðar en starfsfólk hjúkrunarheimilisins segist ekki hafa haft hugmynd um að konan væri ólétt fyrr en hún byrjaði að fæða barnið.

Lögregla fór í kjölfarið fram á lífsýnatöku á öllum karlkyns starfsmönnum hjúkrunarheimilisins. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar og einn af læknum konunnar sögðu af sér vegna málsins.


Tengdar fréttir

„Við höfðum ekki hugmynd um að hún væri ólétt“

Starfsmenn Hacienda Healthcare hjúkrunarheimilisins í Phoenix í Bandaríkjunum höfðu ekki hugmynd um að 29 ára kona, sem hefur verið í dái frá 1992, væri ólétt fyrr en fæðingin hófst í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×