Tvö efstu lið Olís deildar kvenna í handbolta mætast á Hlíðarenda í kvöld þegar deildin fer aftur af stað eftir tæplega tveggja mánaða hlé vegna Evrópumótsins, jólanna og áramótanna.
Topplið Vals tekur þá á móti ÍBV í Origo höllinni á Hlíðarenda og hefst leikurinn klukkan 18.30. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.
Leikurinn verður sá fyrsti í kvennadeildinni síðan 18. nóvember eða í heila 52 daga.
Þetta er toppslagur á milli liða sem geta varla verið jafnari ef marka má hvernig hlutirnir spiluðust fyrir áramót.
Valur og ÍBV náðu bæði í fimmtán stig í fyrstu tíu leikjunum og gerðu líka 18-18 jafntefli í fyrri leiknum sínum í Eyjum. Bæði lið eru með sjö sigra og tvö töp en markatala Valsliðsins er þó mun betri.
Eyjakonur fóru inn í fríið á fimm leikja sigurgöngu sem er lengsta lifandi sigurgangan í deildinni. ÍBV vann alla deildarleiki sína frá tapi á móti Haukum 15. október síðastliðinn.
Valskonur töpuðu þremur leikjum í röð í deild (1) og Evrópukeppni (2) um miðjan nóvember en fóru inn í fríið eftir frábæran fjórtán marka útisigur á Haukum 17. nóvember.
Valsliðið vann fjóra leiki í röð í deildinni eftir jafntefli í Eyjum í október. Einu töp Valskvenna í deildinni í vetur hafa komið í tveimur leikjum liðsins á móti Íslandsmeisturum Fram. Tapleikir ÍBV voru aftur á móti gegn Haukum og HK.
Tveir aðrir leikir fara fram í Olís deild kvenna í kvöld. Klukkan 19.30 mætast Haukar og Fram í Schenkerhöllinni á Ásvöllum og á sama tíma tekur KA/Þór á móti Selfossi í KA-húsinu á Akureyri. Umferðin klárast síðan með leik HK og Stjörnunnar á fimmtudaginn.
Toppslagur í fyrsta leik eftir 52 daga hlé á deildinni
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið

Tryggvi þarf að taka sig á í skólanum
Körfubolti

Kvartar undan Man. City við Evrópusambandið
Enski boltinn



Gera grín að Jürgen Klopp
Fótbolti

Garnacho þarf að splæsa máltíð á allt liðið
Enski boltinn

Víkingar skipta um gír
Íslenski boltinn


