Rúmur helmingur þjóðarinnar telur mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á kjörtímabilinu samkvæmt nýrri könnun MMR. Tæpur þriðjungur telur það lítilvægt og um fimmtungur svaraði bæði og. Minnkar stuðningur við nýja stjórnarskrá aðeins milli ára en þó fjölgar þeim lítillega sem telja mjög mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá.
Stuðningur við nýja stjórnarskrá er mestur meðal elsta aldurshópsins en minnstur meðal þess yngsta. Þá er meiri stuðningur við nýja stjórnarskrá meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en íbúa landsbyggðarinnar.
Kjósendur Pírata eru hlynntastir nýrri stjórnarskrá en 89 prósent þeirra telja hana mikilvæga, 85 prósent kjósenda Flokks fólksins eru sömu skoðunar og 83 prósent kjósenda Samfylkingarinnar.
Minnstur stuðningur er hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins en 66 prósent þeirra telja það lítilvægt að fá nýja stjórnarskrá og 59 prósent kjósenda Miðflokksins eru sömu skoðunar.
