Lífið

Pabbi eyðilagði öll jól

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðrún Lára Sveinbjörnsdóttir opnaði sig í Íslandi í dag í gærkvöldi.
Guðrún Lára Sveinbjörnsdóttir opnaði sig í Íslandi í dag í gærkvöldi.
„Hann var duglegur að hóta okkur. Var einu sinni að keyra með okkur fullur og hótaði að fara fram af ef mamma myndi fara frá honum,“ segir Guðrún Lára Sveinbjörnsdóttir 35 ára flugfreyja, íþróttafræðingur og einstæð móðir sex ára stúlku.

Hún er reglusöm, drekkur ekki og vill hafa hlutina á hreinu sérstaklega fyrir jólin. Ástæðan er uppeldið en pabbi hennar var alkahólisti sem byrjaði seint að drekka eða 27 ára. Hann passaði að flaskan væri aldrei langt undan.

Lára segir að ofbeldið hafi aðallega verið andlegt en líkamlega var það stundum, þá gróft og sérstaklega gagnvart móður hennar.

„Hann var bara á leiðinni að drepa hana með því að kirkja hana. Það endaði með því að lögreglan kom á staðinn, stoppaði það og hann fór í fangelsi. Svo fór hann í meðferð, ein af þessum 23 meðferðum sem hann fór í. Hann lofaði alltaf öllu góðu þegar hann kom heim en síðan byrjaði þetta bara aftur og maður var alltaf svo svekktur.“

Lára lengst til hægri með föður sínum.
Lára segir að jólin hafi alltaf verið erfið.

„Það var mikil óregla í gangi á jólunum. Mikið fyllerí og pabbi sat bara fullur og röflaði til fimm, sex, sjö á nóttunni og vildi ekki að við færum að sofa,“ segir Lára en hún elskaði alltaf föður sinn, allt til dauðadags en undir lokin var hann kominn á götuna. Þá var hann þó byrjaður á ljóðabók sem hann náði þó aldrei að klára.

Guðrún Lára er nýbúin að gefa út bókina Orðspor en hún vildi klára bókina sem faðir hennar byrjaði á. Hún bætti við æskuminningum sínum og útkoman er Orðspor. Lára sér eftir lokasamskiptum sínum við föður sinn.

„Ég sendi honum ljóð um það að hann væri að fara deyja og það var raunin, hann var að fara deyja. Ég hefði viljað sleppa því og ég hefði bara viljað segja við hann í símann: Pabbi ég elska þig en get ekki talað við þig núna,“ segir Lára og brotnar niður.  

Í Íslandi í dag í gærkvöldi sagði Lára frá bókinni og æskunni. Hvernig það var að búa við stöðugan ótta, ótta við að pabbi kæmi fullur heim. Þá segir hún jólin hafa verið sérstaklega erfið og vill minna fólk á, nú þegar jólin nálgast, að börn muni alla tíð það sem gerist á heimilinu, sérstaklega um jólin. Bókin er tileinkuð börnum alkahólist og fer ágóðinn í Vinakot.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×