Viðskipti innlent

Telur ólíklegt að nuddsuð trufli bíógesti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sætin eru alls 38 talsins.
Sætin eru alls 38 talsins. Sambíó
Hinn svokallaði lúxussalur í kvikmyndahúsi Sambíóanna í Álfabakka hefur fengið yfirhalningu. Búið er að skipta út öllum 38 sætum salarins fyrir nýja hægindastóla sem hægt er að hita upp, ásamt því að þeir bjóða upp á fjórar nuddstillingar. Fá kvikmyndahús í heiminum hafa tekið slíka stóla í notkun en ætla má að hver og einn stóll kosti á þriðja hundrað þúsund eftir flutninginn frá Bandaríkjunum til landsins.

Alfreð Árnason, framkvæmdastjóri Sambíóanna, segir í samtali við Vísi að fulltrúar fyrirtækisins hafi komið auga á stólana á vörusýningu erlendis í upphafi árs. Til hafi staðið að endurnýja sætakost lúxussalarins og endingu ákveðið að velja umrædda stóla, sem Alfreð segir að séu „nýjasta nýtt“ í kvikmyndahúsafræðunum. Í erlendum kvikmyndasölum sé víða hægt að fá upphituð sæti - „en maður hafði aldrei séð nudd,“ segir Alfreð.

Hver sá sem sest hefur í nuddsæti þekkir það af eigin raun að sætin kunna að gefa frá sér leiðinlegt suð þegar kveikt er á nuddstillingunni. Alfreð hefur þó ekki mikla trú á því að lágværa malið sem lúxussalssætin gefa frá sér muni trufla upplifun annarra gesta. Líklegt verði að teljast að kvikmyndin á skjánum muni yfirgnæfa hvers kyns nuddhljóð.

Alfreð gerir ráð fyrir að stólarnir verði komnir í gagnið í vikunni. Hann segist sjálfur ætla að prófa sætin yfir kvikmyndinni Mortal Engines, sem skartar Heru Hilmarsdóttur í aðalhlutverki og tekin verður til sýninga fljótlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×