Erlent

Skrifaði undir viljayfirlýsingu um byggingu í Moskvu

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci
Fjórum mánuðum eftir að Donald Trump tilkynnti að hann væri í framboði til embættis forseta Bandaríkjanna, skrifaði hann undir viljayfirlýsingu um að byggja Trump-turn í Moskvu. Christopher C. Cuomo, fréttamaður CNN, sagði frá þessu í þætti sínum seint í gærkvöldi en Rudy Giuliani, lögmaður Trump, sagði á sunnudaginn að bréf þetta hefði verið skrifað en enginn hefði skrifað undir það.



Auk Trump, skrifaði Andrey Rozov, eigandi rússnesks fyrirtækis sem hefði einnig komið að verkefninu, einnig undir viljayfirlýsinguna. Samkvæmt henni hefði fyrirtæki Trump fengið fjórar milljónir dala greiðslu við upphaf byggingar, án þess að þurfa að koma að kostnaði með nokkrum hætti. Þá fengi fyrirtækið hluta af söluhagnaði byggingarinnar og kom til greina að nefna heilsulind byggingarinnar í höfuðið á dóttur Trump, Ivönku Trump.

Hér má sjá hluta þáttar Cuomo í gær.

Á þeim tíma sem Trump skrifaði undir yfirlýsinguna jós hann hrósi yfir Vladimir Pútín, forseta Rússlands. Hann sagði hann gáfaðan og hæfileikaríkan, lofaði hann fyrir leiðtogahæfileika sína og varði hann gagnvart morðum á blaðamönnum og pólitískum andstæðingum hans.



Michael Cohen, lögmaður Trump, sagði þingmönnum í fyrra að forsetinn hefði skrifað undir yfirlýsinguna en það hafði ekki verið sannað fyrr en nú.

Þá hefur Trump ítrekað haldið því fram að hann hefði ekkert með Rússland að gera, þekkti ekki til Rússlands og ætti ekki í viðskiptum þar. Nokkrum dögum áður en Trump sór embættiseið ítrekaði hann að hann tengdist Rússlandi ekki á nokkurn hátt.

„Ég er ekki með neina samninga við Rússland. Ég er ekki með neina samninga í Rússlandi. Ég er ekki með neina samninga sem gætu gerst í Rússlandi því við héldum okkur frá Rússlandi. Við hefðum auðveldlega getað gert samninga í Rússlandi ef við vildum. Ég vil það ekki því ég held að það myndi skapa hagsmunaárekstur. Þannig að ég er ekki með lán, enga samninga og enga samninga í burðarliðum,“ sagði Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×