Handbolti

Tæklaði sænska stelpu út af EM en fékk ekki rautt og var síðan valin maður leiksins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katarina Bulatovic og Ema Ramusovic  hjálpa Danielu Gustin af velli.
Katarina Bulatovic og Ema Ramusovic hjálpa Danielu Gustin af velli. Vísir/EPA
Sænska landsliðskonan Daniela Gustin spilar ekki meira á EM kvenna í handbolta eftir mjög gróft brot frá leikmanni Svatfjallalands í fyrsta leik þjóðanna í milliriðli í gær.

Nú er komið í ljós að hin sænska Daniela Gustin er með slitið krossband og verður lengi frá. Þetta er mikil áfall fyrir sænska landsliðið sem og félagsliðið hennar sem er þýska liðið SG BBM Bietigheim.

Svartfellingurinn Milena Raicevic braut mjög illa á Danielu Gustin í hraðaupphlaupi undir lok leiksins. Daniela Gustin skoraði reyndar úr hraðaupphlaupinu en tækling Raicevic sleit hjá henni krossbandið.





Milena Raicevic fékk tvær mínútur frá dómurum leiksins en margir skilja hreinlega ekki hvernig hún gat ekki fengið rautt spjald fyrir þetta grófa brot.

Handboltadómarar hafa verið að taka mjög hart á brotum í hraðaupphlaupum og þar fá leikmenn oft rauð spjöld fyrir minni snertingar. Þessi grófa tækling þótti hinsvegar ekki efni í rautt spjald.

Til að kóróna allt þá var Milena Raicevic síðan valin maður leiksins af valnefnd EHF. Milena Raicevic átti vissulega góðan leik og gaf tíu stoðsendingar á félaga sína í liði Svartfjallalands. Hún skoraði reyndar bara eitt mark og átti síðan aldrei að klára leikinn.

Brot Milena Raicevic kom í stöðunni 28-25 fyrir Svartfjallaland. Svartfjallaland vann síðan leikinn 30-28.

Það má vissulega hrósa tveimur liðsfélögum Milena Raicevic fyrir hennar viðbrögð. Katarina Bulatovic og Ema Ramusovic  hjálpuðu Danielu Gustin hágrátandi af velli. Minna heyrðist af viðbrögðum Milena Raicevic sem var þarna kominn í skammakrókinn en aðeins þó í bara tvær mínútur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×