Innlent

Borgin skeri niður stjórnsýslu og borgi auka 140 milljónir til SÁÁ

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins MYND/HÅKON BRODER LUND
Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt til að Reykjavíkurborg auki fjárveitingar til SÁÁ um 140 milljónir króna. Lagt er til að veitingin verði fjármögnuð með því að skera niður um 2,4 prósent í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar en rekstrarkostnaður hennar nemur rúmum 5,8 milljörðum króna samkvæmt fjárhagsáætlun 2019.

Gert er ráð fyrir að stærstum hluta fjármunanna, um 65 milljónum, verði varið í að koma á fót búsetu- og meðferðarúrræði fyrir tíu konur með alvarlega fíknisjúkdóma. Því sem eftir stendur verði varið í stuðning og sálfræðiþjónustu fyrir börn sem eru aðstandendur einstaklinga með fíknisjúkdóma, þjónustu fyrir fólk yngra en 25 ára sem glímir við fíkn og sérhæfða þjónustu til stuðnings einstaklingum eldri en fimmtíu ára með langvarandi fíknivanda.

Núverandi þjónustusamningur borgarinnar við SÁÁ hljóðar upp á 19 milljóna króna fjárveitingu. Tillögurnar gera ráð fyrir tíu milljóna króna stofnkostnaði vegna búsetu­úrræðisins fyrsta árið og 130 milljónum vegna annarra þátta. Kostnaður á öðru samningsári yrði því 130 milljónir króna og yrði samningurinn endurskoðaður árlega.

„Mikilvægt er að hlúa betur að einstaklingum með fíknivanda vegna breytinga á samfélagsmynstri síðustu ár. Sóknarfærin felast meðal annars í snemmíhlutunum og forvirkum aðgerðum fyrir einstaklinga í áhættuhóp, sem sagt koma í veg fyrir að fólk lendi í neyslu,“ segir Egill Þór.

Tillagan verður rædd á fundi borgarstjórnar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×