Fótbolti

Þýskaland gæti endað í sama styrkleikaflokki og Ísland í undankeppni EM 2020

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þýska stórstjarnan Toni Kroos.
Þýska stórstjarnan Toni Kroos. Vísir/Getty
Í kvöld kemur endanlega í ljós hver verður tíunda þjóðin í öðrum styrkleikaflokki fyrir undankeppni EM 2020 en dregið verður í byrjun næst mánaðar.

Þýskaland og Pólland „keppa“ um síðasta sætið í fyrsta styrkleikaflokki en það lið sem tapar þeirri baráttu dettur niður í annan styrkleikaflokk.

Það er þegar ljóst að átta aðrar þjóðir verða með Ísland í öðrum styrkleikaflokki og þar með geta þær þjóðir aldrei lent með íslenska landsliðinu í riðli í undankeppninni.

Þær þjóðir eru Austurríki, Bosnía, Tékkland, Danmörk, Rússland, Svíþjóð, Úkraína og Wales.

Það yrði vissulega sögulegt ef að Þýskaland yrði ekki í efsta styrkleikaflokki en hvað þarf þá að gerast.

Þýskaland hefur lokið sínum leikjum og endaði í neðsta sæti í sínum í A-deildinni með tvö stig. Pólverjar eru með eitt stig í neðsta sæti í sínum riðli en eiga einn leik eftir.

Pólverjar heimsækja Portúgala í Guimaraes í kvöld en nægir jafntefli til að komast upp fyrir Þýskaland og tryggja sér sæti í fyrsta styrkleikaflokki í undankeppni EM 2020.

Þjóðirnar sem eru öruggar í fyrsta styrkleikaflokk eru England, Holland, Portúgal, Sviss, Belgía, Króatía, Frakkland, Ítalía og Spánn.

Drátturinn í undankeppni EM 2020 fer síðan fram í Dublin á Írlandi 2. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×