Viðskipti innlent

Síminn og Sýn sýknuð af kröfum hvors annars

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Orri Hauksson er forstjóri Símans og Stefán Sigurðsson er forstjóri Sýnar.
Orri Hauksson er forstjóri Símans og Stefán Sigurðsson er forstjóri Sýnar. Vísir
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun kröfu Sýnar á hendur Símanum til greiðslu skaðabóta vegna brota Símans á samkeppnislögum, sem og gagnkröfu Símans á hendur Sýn. Ætla má að niðurstöðunni verði áfrýjað til Landsréttar.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar eru málavextir raktir í stuttu máli. Þar segir meðal annars að Samkeppniseftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu árið 2012 að „Síminn hafi misnotað gróflega markaðsráðandi stöðu sína“ og brotið gegn samkeppnislögum og ákvæðum EES-samningsins.

Brot Símans eru meðal annars sögð hafa falist í því að fyrirtækið bætti keppinauta sína „ólögmætum verðþrýstingi um langt árabil.“

Sýn höfðaði því skaðabótamál gegn Símanum í nóvember árið 2013, sem Síminn svaraði með gagnstefnu. Grundvöllur hennar var sá að Sýn hefði sýnt af sér sömu háttsemi og fyrirtækið ásakaði Símann um.

Sem fyrr segir voru bæði fyrirtækin hins vegar sýknuð af kröfunum. Í tilkynningu Sýnar segir jafnframt að líklegt verði að teljast að fyrirtækið muni áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar.

Vísir er í eigu Sýnar hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×