Stefnt er að því að verkefnahópur um borgarlínu, almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu, ljúki drögum að tillögum um fjármögnun og útfærslur í þessari viku eða byrjun næstu, að sögn Hreins Haraldssonar, fyrrverandi vegamálastjóra og formanns verkefnahópsins. Þá verði niðurstöður hópsins kynntar Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og samgönguráðherra. Viljayfirlýsing samgönguráðherra, borgarstjóra, og bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgangna var undirrituð í september, um svipað leyti og samgönguáætlun var kynnt, en í kynningu hennar var ekki gert ráð fyrir fjármunum í uppbyggingu borgarlínu.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í sínum huga ljóst að um sé að ræða sameiginlegan vilja ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að fjármögnun borgarlínu verði tryggð. „Við höfum litið svo á að endanleg samgönguáætlun liggi ekki fyrir. Enda er engin tilviljun að það er skrifað undir viljayfirlýsingu nánast samtímis og samgönguáætlun er kynnt. Það undirstrikaði í mínum huga vilja ríkisstjórnarinnar til að ráðast í átak í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins, í stofnvegum, borgarlínu og stofnstígakerfi fyrir hjólreiðar. Þetta eru lykilaðgerðir til að ná árangri í loftslagsmálum og að ekki verði frekari tafir í umferðinni.“ Allar fyrirhugaðar breytingar á samgönguáætlun munu svo fara fyrir Alþingi sem þarf að samþykkja þær.

Sín megin hefur borgarstjórn þegar samþykkt að klára breytingar á aðalskipulagi til að tryggja framgang borgarlínu og að framkvæmdir við fyrstu hluta verksins verði tilbúnar í útboð árið 2020. „Í fimm ára fjárhagsáætlun borgarinnar, sem kynnt var í síðustu viku, var gert ráð fyrir um fimm milljörðum í uppbyggingu borgarlínu,“ útskýrir Dagur.
Í umsögninni er enn fremur reifað að ekki verði séð hvernig stjórnvöld ætli sér að standa við metnaðarfullar áætlanir í loftslagsmálum nema með breyttu samgöngumynstri á höfuðborgarsvæðinu. Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borginni, segir ljóst að borgarlína sé liður í því að staðið verði við áætlanir í umhverfismálum sem ríkisstjórnin hefur sjálf sett sér.

Hvað er borgarlína?
Borgarlínan mun ferðast í sérrými í gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins með forgang á umferðarljósum sem eykur áreiðanleika og ferðahraða. Tíðni ferða verður mikil og getur farið í 5-7 mínútur á annatímum en þar sem þörf er á meiri afkastagetu getur hún farið í um 2 mínútur. Lögð verður áhersla á vandaðar yfirbyggðar biðstöðvar, með farmiðasjálfsölum og samtíma upplýsingaskiltum sem sýna hvenær næsti vagn kemur.
Kostnaður borgarlínu
Áætlaður kostnaður er um 1,10-1,15 milljarðar króna á hvern kílómetra á verðlagi í janúar 2017. Heildarkostnaður gæti því numið 63 t